Miðað við myndir sem sýndar voru af bílnum á hann fátt sameiginlegt með núverandi Jeep Wagoneer. Að vísu er sjö arma grillið á sínum stað en nú er hægt að kveikja á því. Fyrir ofan það er ljósarönd og þar fyrir ofan Wagoneer merkingin. Afturendinn er nokkuð kúptur en það er falið með stórri vindskeið sem hönnuð er til að draga úr titringi á loftinu fyrir aftan bílinn. Undirvagninn verður nýi STLA undirvagninn frá Stellantis en hann ræður við yfir 100 kWst rafhlöðu. Hann getur verið með tvo rafmótora allt að 592 hestöf l og hröðun upp á aðeins 3,5 sekúndur í hundraðið. Bíllinn verður frumsýndur á næsta ári en framleiðsla fyrir bæði Ameríku- og Evrópumarkað hefst ári seinna.