Að sögn Antonella Bruno, forstjóra Jeep í Evrópu, mun fjórhjóladrifin útgáfa bílsins koma á markað á næsta ári. Jeep Avenger rafbíllinn er kominn á markað í Evrópu sem framdrifsbíll og er einungis seldur sem raf bíll á flestum mörkuðum í Evrópu. Fjórhjóladrifin útgáfa hans verður væntanlega með tveimur rafmótorum en slíkur tilraunabíll var sýndur á bílasýningunni í París í fyrra. Þó að Avenger sé byggður á eCMP-undirvagninum, sem einnig er undir framhjóladrifnum bílum eins og Opel Mokka og Peugeot e-2008, hafa hönnuðir Jeep þróað fjórhjóladrifsútgáfu með þeim undirvagni.

Þegar höfðu verið gerðar yfir 7.000 pantanir á framdrifsútgáfunni áður en hann fór á markað sem er meira en nokkur annar Jeep á undan honum. Að sögn Sigurðar Kr. Björnssonar hjá Ísband er reiknað með að Avenger komi hingað til lands í maí. Endanlegt verð liggur ekki fyrir en það verður kynnt fljótlega og mun þá forsala á bílnum hefjast í kjölfarið.