Ari Brynjólfsson
Laugardagur 28. nóvember 2020
06.00 GMT

Samfélag Rúmlega sex af hverjum tíu Íslendingum játa kristna trú, á sama tíma telja fjórir af hverjum tíu sig vera trúaða. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegum niðurstöðum könnunar sem Maskína gerði fyrir lífsskoðunarfyrirtækið Siðmennt fyrr á þessu ári og Fréttablaðið hefur fengið aðgang að. Kjarninn og Fréttablaðið hafa áður greint frá hluta niðurstaðnanna. Svipuð könnun var gerð árið 2015, þegar niðurstöðurnar eru bornar saman kemur í ljós að trúuðum fækkar á sama tíma og trúlausum fjölgar.

Könnunin var gerð dagana 16. til 22. janúar 2020, 954 svöruðu. Samkvæmt upplýsingum frá Maskínu höfðu þátttakendur ekki vitneskju um á hvers vegum könnunin væri.

Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, segir að tilgangur könnunarinnar sé að fá skýra sýn á stöðu trúmála í landinu. „Þær tölur sem að við fáum frá hinu opinbera eru um hversu margir eru í Þjóðkirkjunni. Þessi könnun sýnir okkur að þær tölur segja ekkert um lífsskoðanir Íslendinga,“ segir Inga Auðbjörg. „Svo er reglulega spurt um skoðanir fólks á aðskilnaði ríkis og kirkju, en aldrei dýpra í það. Við gerðum svipaða könnun fyrir fimm árum og þetta er framhald af henni.“

Könnunin samanstendur af fimmtán spurningum, þeim má svo skipta niður eftir kyni, aldri, búsetu, menntun, stjórnmálaskoðunum og fleiru.

Trúuðum fækkar úr 46,6 prósentum árið 2015 niður í 41,6 prósent í ár. Þá fjölgar þeim sem telja sig ekki trúaða úr tæpum 30 prósentum í 36,1 prósent.

Þegar rýnt er í niðurstöðurnar sést að meira en helmingur fólks á aldrinum 18 til 39 ára segist ekki vera trúaður. Trú eykst svo með aldrinum. Þá er fólk með grunnskólamenntun líklegast til að telja sig trúað, eða rúm 53 prósent á móti tæpum 20 prósentum sem telur sig ekki trúað. Staðan snýst svo við þegar fólk er með framhaldsmenntun úr háskóla, þá telja tæp 30 prósent sig trúuð á móti 48 prósentum sem telja sig ekki trúuð. Lítill munur er á niðurstöðunum þegar litið er til tekna. Þá eru konur líklegri til að vera trúaðri en karlar, 45 prósent á móti 38 prósentum. 41 prósent karla telja sig ekki trúaða á móti 31 prósenti kvenna.

Trúlaus en játa kristna trú

Athygli vekur að hvort fólk telur sig trúað eða ekki helst ekki í hendur við hvort það játi kristna trú eða ekki. Alls játa 61,4 prósent kristna trú á móti tæpum 28 prósentum sem skilgreina sig sem trúleysingja. Dregið hefur saman með þessum hópum síðustu fimm ár. Árið 2015 sögðust tæp 69 prósent játa kristna trú og 22,6 prósent vera trúlaus. 7,6 prósent segjast trúa á annað og hefur þeim fjölgað lítillega síðustu ár.

Mynd/Fréttablaðið

Rúm 45 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára segjast játa kristna trú, svipaða tölu má sjá í aldurshópnum 30 til 39 ára. Tekur það svo stökk upp í rúm 63 prósent hjá fólki á aldrinum 40 til 49 ára. Fer það svo upp í 75 prósent í aldurshópnum 50 til 59 ára og upp í 82 prósent hjá fólki yfir sextugu.

Þegar skoðað er nánar hvað felst í því hvað gerir fólk kristið telja flestir, eða 46,5 prósent að þeir séu ekki vissir um tilvist guðs en trúi á boðskap kristninnar og siðferði hennar. Tæp 31 prósent trúa á guð, Jesú, upprisu og eilíft líf, ásamt því að aðhyllast boðskap Biblíunnar. 10,7 prósent trúa ekki á guð en aðhyllast boðskap kristni. Þá segjast 12 prósent þeirra sem játa kristna trú vera trúlaus en tilheyra kristinni hefð, til dæmis með því að sækja messu á stórhátíðum.

Ólík viðhorf aldurshópa

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru 231.112 Íslendingar skráðir í Þjóðkirkjuna, fækkun um meira en 11 þúsund síðustu fimm ár, á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um 35 þúsund. í dag eru um 63,4 prósent skráð í Þjóðkirkjuna, fækkun úr 88,6 prósentum um aldamótin.

Í könnun Maskínu er spurt hversu mikla samleið fólk á með Þjóðkirkjunni, og breytast svörin lítið milli 2015 og 2020. Alls telur 7,1 prósent sig eiga mikla samleið með kirkjunni og 18,4 prósent frekar mikla. 25,7 prósent segjast eiga nokkra samleið. Tæp 29 prósent segjast eiga litla samleið með kirkjunni og tæp 20 prósent enga. Niðurstöðurnar dreifast nánast eins á hópa og þegar spurt var um trú. Er það töluvert líklegra að fólk sem telur sig trúað eigi samleið með Þjóðkirkjunni, segjast þó meira en 15 prósent trúaðra eiga litla eða enga samleið með kirkjunni. Mest afgerandi niðurstaðan er sú er viðkemur aldri en aðeins 0,8 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára finnst það eiga mjög mikla samleið með Þjóðkirkjunni, 5,6 prósent telja sig hafa frekar mikla og 23,5 prósent nokkra.

Meirihluti vill ríkisstyrki

Skoðanir á trú haldast að nokkru leyti í hendur við skoðanir á hvort ríkið eigi að styrkja Þjóðkirkjuna eða önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Rúmum 40 prósentum finnst að ríkið ætti ekki að styrkja kirkjuna eða önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Tæp 30 prósent vilja að ríkið styrki Þjóðkirkjuna meira en önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Tæp 29 prósent vilja að styrkurinn sé hlutfallslega jafn. Minna en eitt prósent vill að ríkið styrki eitthvað annað trúfélag en Þjóðkirkjuna hlutfallslega meira en önnur.

fréttablaðið/auðunn

Vekur athygli í samanburði við minnkandi trú að færri telja nú en árið 2015 að ríkið ætti ekki að styrkja nein trúfélög, en þá var hlutfallið 46 prósent.

Þegar kemur að stjórnmálaskoðunum eru stuðningsmenn Miðflokksins líklegastir til að vilja að ríkið styrki Þjóðkirkjuna meira en önnur trúfélög, eða 65 prósent. Þar á eftir koma stuðningsmenn Flokks fólksins, 52 prósent, Framsóknarflokksins, 49 prósent, Sjálfstæðisflokksins, 43 prósent, og Vinstri grænna, 37 prósent.

Píratar eru líklegastir til að vilja að ríkið styrki ekki nein trúfélög, 74,5 prósent. Þar á eftir koma stuðningsmenn Viðreisnar, rúm 50 prósent, og Samfylkingarinnar, 35,6 prósent.

Vilja frekar veraldlega sálgæslu

Þá er spurt ítarlega um sálgæslu, hvort sem það er á sjúkrahúsi, dvalarheimili eða í fangelsi. Þrír af hverjum fjórum hafa aldrei verið í aðstæðum þar sem boðið hafi verið upp á slíkt. Voru svörin nánast jöfn milli kynja og aldurs. Þegar kemur að því hvort fólk vilji þiggja kristilega sálgæslu segjast 39 prósent vera líkleg eða mjög líkleg til að þiggja hana, 37 prósent telja það ólíklegt eða útilokað.

Þegar kemur að veraldlegri sálgæslu telja rúm 59 prósent sig vera líkleg eða mjög líkleg til að þiggja hana. Rúm 13 prósent telja það ólíklegt eða útilokað. Munurinn er í minna lagi á milli hópa, bæði trúaðir og ekki trúaðir eru líklegir til að þiggja veraldlega sálgæslu, þeir sem eru ekki trúaðir eru þó ólíklegir til að þiggja kristilega sálgæslu.

Athugasemdir