Þrettán ára gömul frönsk stúlka hefur nú játað að hún laug til um mynd­birtingu sögu­kennarans Samuel Paty á spá­manninum Múhameð en hún hafði áður haldið því fram að Paty hefði sýnt myndirnar í tíma þar sem fjallað var um tjáningar­frelsi. Skömmu síðar var Paty myrtur á hrotta­fenginn hátt en hann hafði fengið líf­láts­hótanir vegna málsins.

Paty var af­höfðaður úti á götu í út­hverfi í Parísar­borg þann 16. októ­ber en á­rásar­maðurinn, 18 ára gamall maður frá Tsjet­sjeníu sem játaði morðið á sam­fé­lags­miðlum, var skotinn til bana af lög­reglu. Um­fangs­mikil rann­sókn hófst í kjöl­farið og voru nokkrir hand­teknir vegna málsins, grunaðir um hryðju­verk.

Bein tenging milli umræðu á samfélagsmiðlum og morðsins

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hefur stúlkan nú játað að hún hafi ekki verið í um­ræddum tíma en hún sagði upp­runa­lega við föður sinn að Paty hafði beðið nem­endur sem væru múslimar um að yfir­gefa kennslu­stofuna fyrir tímann. Nú hefur komið í ljós að stúlkunni hafði verið vikið tíma­bundið úr skólanum vegna mætingar deginum áður en tíminn fór fram.

Faðir stúlkunnar fór í her­ferð gegn Paty á sam­fé­lags­miðlum og greindi meðal annars frá nafni hans og skólanum sem hann kenndi í tveimur mynd­böndum. Að sögn sak­sóknara í málinu var bein tenging á milli sam­fé­lags­miðla­her­ferðarinnar gegn Paty og morðsins.

Segist hafa logið vegna þrýstings

Lög­maður stúlkunnar greindi frá því fyrr í vikunni að hún hafi upp­lifað þrýsting af hálfu sam­nem­enda sinna til að segja frá málinu og beðið hana um að vera þeirra talsmann og því hafi hún logið. Þá hafi hún ekki viljað valda föður sínum von­brigðum sem trúði því sem hún sagði.

Virgini­e Le Roy, lög­maður fjöl­skyldu Paty, sagði aftur á móti í við­tali í gær að fjöl­skylda stúlkunnar hafi vitað að hún hafi ekki verið í tímanum þennan dag. „Þannig að koma fram núna og segja, fyrir­gefðu, ég trúði lygum dóttur minnar, það er mjög mátt­laust,“ sagði Le Roy.