Breskur maður að nafni Jaswant Singh Chail játaði sig í dag sekan vegna áætlana hans um að myrða Elísabetu heitna Bretadrottningu á jóladag árið 2021. Hann hefur játað sekt í þremur ákæruliðum, þar á meðal um landráð og vörslu á ólöglegu vopni.
Jaswant Singh Chail var gripin fyrir utan Windsor-kastala þann 25. desember árið 2021. Hann var grímuklæddur, í svörtum fötum og vopnaður lásboga. „Ég er hingað kominn til að drepa drottninguna,“ sagði hann við öryggisverði áður en hann var handtekinn.
Vegna játningar sinnar kemur Chail til með að vera fyrsti einstaklingurinn sem verður sakfelldur fyrir landráð í Bretlandi frá árinu 1981. Síðasti maðurinn sem var sakfelldur fyrir þetta brot var Marcus Sarjeant, sem skaut púðurskotum á Elísabetu á herskrúðgöngu í London það ár.
Í myndbandi sem Chail birti áður en hann fór til Windsor-kastala greindi hann frá því að hann hafi viljað ná fram hefndum gegn bresku krúnunni vegna fjöldamorðanna í Amritsar árið 1919. Um var að ræða skothríð sem breskir hermenn hófu á óvopnaða mótmælendur úr röðum indverskra sjálfstæðissinna. Bretum taldist svo til að rúmlega 300 mans hafi látist en Indverjar telja að mun fleiri hafi fallið í valinn, að minnsta kosti þúsund manns.