Spánverjinn Alberto Sánchez Gomez er nú fyrir rétti en hann er sakaður um að hafa myrt, bútað niður og borðað móður sína árið 2019. Þetta er haft eftir fjölmiðlum á Spáni.

Alberto hefur sjálfur játað að hafa myrt móður sína, Mariu Soledad Gomez, í íbúð þeirra í Ventas- hverfinu í Madríd og síðar bútað hana niður.

Lögreglumenn lýstu í réttarsal aðkomunni að íbúð móðurinnar þegar uppvíst varð um glæpinn. Alberto tók þá á móti þeim og sagði að móðir hans væri látin.

Þegar inn var komið fundust líkamsleifar Mariu á víð og dreif um íbúðina. Þær voru sumar vafðar í plast, höfðu verið settar í ísskáp eða lágu matreiddar í pottum og ofni í eldhúsinu. Höfuð Mariu og hendur fundust í svefnherberginu ásamt hjarta hennar sem lá í íláti ásamt gaffli.

Alberto, sem hefur fengið viðurnefnið „mannætan í Ventas“ hefur játað að hafa eldað hluta af líkamsleifunum, gefið fjölskylduhundinum hluta þeirra og sjálfur borðað aðra hluta hráa. Öðrum leifum henti hann í ruslið.

Lögreglumenn segja að Gomez hafi verið mjög rólegur þegar þá bar að garði. Hann hafi talað um málið líkt og um hversdagslegan hlut væri að ræða en þó lýst yfir áhyggjum af því hvernig hundur hans hefði það.

Að sögn Alberto greip hann þó aðeins til þessara ráða til að losa sig við líkið og verksummerkin. Hann sagðist ekki sjá eftir neinu þar sem móðir hans hefði „gert lífið óbærilegt“.

Í réttarhöldunum sagðist Alberto hafa heyrt raddir sem sögðu honum að drepa móður sína. Hann hefði búið á götunni eftir að Maria fékk sett nálgunarbann á hann.

Verði Alberto fundinn sekur bíður hans fimmtán ára fangelsisdómur fyrir morðið á Mariu og fimm mánuðir að auki fyrir að hafa svívirt lík hennar.