Karlmaður var í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn kornungri stjúpdóttur sinni. Er 21 mánuður af refsingunni bundinn skilorði þar sem maðurinn kom af sjálfsdáðum til lögreglunnar og játaði brot sitt.

Brotin áttu sér stað á tímabilinu 2010-2013 en stúlkan var eins árs þegar brotin hófust. Maðurinn játaði að hafa snert stúlkuna og að hafa látið hana snerta sig. Í einu tilfelli myndaði hann athæfið og hafði myndina í vörslu sinni.

Árið 2014 vaknaði grunur um að maðurinn hefði brotið gegn stúlkunni. Málið var rannsakað en síðar fellt niður þar sem gögn málsins þóttu ekki líkleg til ákæru. Fyrir rúmu ári kom maðurinn að eigin frumkvæði á lögreglustöð og játaði brot sín.

Við ákvörðun refsingar var meðal annars tekið mið af því og leiddi það til þess að refsingin varð léttari en ella hefði verið. Þótti játningin sýna iðrun mannsins og skýran vilja til að bæta fyrir brot sín. Af sömu ástæðu þótti unnt að skilorðsbinda refsinguna.

Auk refsingarinnar þarf maðurinn að greiða tvær milljónir króna í miskabætur til brotaþola. Þá þarf hann að greiða allan sakarkostnað málsins, tæpar 600 þúsund krónur.