Karl­maðurinn sem hand­tekinn var vegna gruns um að hafa selt hlaup­bangsa sem inni­héldu fíkni­efni hefur nú játað brotið á sig. Eins og greint var frá í síðasta mánuði voru tvær ungar stúlkur, 13 og 14 ára, fluttar með­vitundar­lausar á sjúkra­hús eftir að hafa borðað hlaup­bangsana. Talið er að kanna­bis­efni og morfín hafi verið í hlaupinu.

Maðurinn, sem játaði að hafa selt fíkni­efna­fyllta bangsana, er á fimm­tugs­aldri. Hann var hand­tekinn í gær og gerði lög­regla þá hús­leit hjá honum. Þar fundust tól og tæki til fíkni­efna­fram­leiðslu, þar á meðal hlaup­böngsum. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglu.

Maðurinn játaði að hafa fram­leitt fíkni­efni og selt þau um nokkurt skeið. Hann hefur áður komið við sögu lög­reglu vegna fíkni­efna­mála.

Stúlkurnar sem voru fluttar á sjúkra­hús eftir að hafa borðað hlaup­bangsana höfðu fengið þá hjá ungum manni sem hafði keypt þá af manninum sem játaði á sig brotið. Þær héldu að þær væri að fá sér venju­lega hlaup­bangsa þegar þær átu þá en veiktust fljótt mjög.