Kærasti Gabby Petito, Brian Laundrie, viðurkenndi áður en hann fyrirfór sér að hafa myrt hana. Það gerði hann í dagbók sem fannst nærri líki hans samkvæmt bandarísku Alríkislögreglunni, FBI.
Laundrie er talinn hafa skotið sjálfan sig eftir að lík Petito fannst í september síðastliðnum en hann kyrkti hana til bana. Líkið fannst á tjaldsvæði í Wyoming en parið hafði verið saman á ferð yfir landið.
Lík Laundrie fannst í Flórída nærri heimili foreldra hans í október á síðasta ári og með honum byssan, bakpokinn hans og dagbókin hans. Greint er frá á BBC.
„Samkvæmt rannsókn okkar er enginn annar sem er talinn tengjast beint sorglegum dauðdaga Gabby Petito annar en Brian Laundrie,“ sagði FBi fulltrúinn Michael Schneider í yfirlýsingu sem send var út í gær, föstudag, og að helsta markmið rannsóknarinnar hafi verið að fá réttlæti fyrir Gabby Petito og fjölskyldu hennar.
Fjölskylda Petito þakkaði lögreglunni í yfirlýsingu fyrir sín störf og nefndu sérstaklega deild innan alríkislögreglunnar sem þjónustar brotaþola og sögðu starfsfólkið hafa hjálpað allri fjölskyldunni að komast í gegnum versta tímabil lífs síns.
Mál Petito vakti mikla athygli í Bandaríkjunum en þau höfðu vandlega skrásett alla ferðina á Internetinu. Hann kom einn heim til sín að loknu ferðalaginu í september en mamma Petito tilkynnti hana týnda 11. september eftir að hún hætti að svara símtölum frá henni. Lík hennar fannst svo þann 19. sama mánaðar. Hún sást síðast á lífi þann 27. ágúst.