Játning liggur nú fyrir vegna manndrápsins í Rauðagerði í febrúar en þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um málið rétt í þessu. Þar fór Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi rannsóknarinnar yfir framvindu málsins.

Sá sem talinn er hafa átt mestan þátt í málinu kemur frá Albaníu, líkt og sá látni. Á blaðamannafundinum kom fram að málið hefði verið eitt það viðamesta hjá embættinu. Þar þakkaði lögreglan öllum þeim sem aðstoðað hefðu við málið.

„Nú liggur fyrir játning í málinu sem passa við gögn og kenningar lögreglu um það hvernig atburðarásin átti sér stað. Þau sem lögreglan telur eiga hvað mesta aðild að málinu komu frá Albaníu líkt og hinn látni,“ segir Margeir.

Armando Beqirai var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt aðfaranótt sunnudagsins 14. febrúar en níu skotsár fundust á höfði og líkama Armando. Hann var fæddur árið 1988. Krufning leiddi í ljós að hann hafði verið skotinn níu sinnum í búk og höfuð.

Á annan tug einstaklinga hafa hingað til verið með réttarstöðu sakbornings og hefur rannsóknin verið gríðarlega viðamikil. Skýrslur hafa verið teknar af tugum vitna og í síðustu viku greindi lögreglan frá því að þau teldu sig vera með morðvopnið. Það fannst í sjó rétt fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Fjórtán manns eru með réttarstöðu sakbornings í málinu. Einungis einn er í haldi en sjö sæta farbanni.

Lögreglan segir málið hið viðamesta í seinni tíð.
Ljósmynd/Almannavarnir

Vekur það sérstaka athygli lögreglu hve mörg þjóðerni tengjast málinu. Slík samskipti séu óalgeng í nágrannalöndum okkar. Þrjátíu manns komu að rannsókninni. Margeir segir miðlæga rannsóknardeild lögreglu hafa lyft grettistaki í viðbúnaði vegna slíkra mála.

Lögreglan framkvæmdi tólf húsleitir vegna málsins og ræddi við fjölda vitna. Þá var greint frá því í vikunni að tveir hefðu verið úrskurðaðir í tíu vikna farbann vegna málsins. Alls eru það því sjö manns. Það gildir til miðvikudagsins 2. júní, vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á málinu.

„Lögreglan vill taka sérstaklega fram að hún mun halda áfram að fylgjast mjög náið með framvindu mála, með tilliti til hættu á hefndaraðgerðum eða uppgjöri, sérstaklega eftir að játning lá fyrir,“ segir Margeir. Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs lögreglu, segir játninguna hafa markað þáttaskil í rannsókn málsins.

„Einn sakborninga í málinu hefur játað sök og markar þessi játning þáttaskil í þessari rannsókn. Játning er mjög sterkt sönnunargagn en það dugar ekki eitt og sér til þess að brot teljist sannað, játning þarf að vera studd öðrum gögnum og við teljum að við séum með þau gögn.“

Neitaði þar til gögn lágu fyrir

Margeir Sveinsson, yfirlögreguþjónn.
Ljósmynd/Almannavarnir

Í fyrirspurnartíma í lok blaðamannafundarins sagði Margeir aðspurður að maðurinn sem játaði sök, hefði í fyrstu neitað þar til sönnunargögn lágu fyrir. „Hann neitaði þangað til hann var kominn upp við vegg, ef svo má segja. Þannig hefur rannsókn þessa máls verið heilt í gegn. Í upphafi vorum við með afskaplega lítið í höndunum. Og kom afskaplega lítið fram til að gera í yfirheyrslum. Þannig þetta var eiginlega bara byggt á gögunum og þeim aðferðum sem við höfum beitt.“

Þá sagði Margeir lögregluna Armando hafa tengst skipulagðri brotastarfsemi. Maðurinn sem hefði játað hefði verið búsettur á landinu um nokkurra ára skeið. Aðspurður út í játningu mannsins segir Margeir: „Hans játning passar við gögn og okkar kenningar á atburðarrás þessa máls.“

Þá er morðvopnið enn til rannsóknar lögreglu, meðal annars með tilliti til mögulegra fingrafara. „Þetta er skammbyssa sem var með hljóðdeyfi. 22 kalíbera, eins og fram hefur komið. Hún fannst í sjó og sú rannsókn er bara í gangi, hvort við getum fundið á henni fingraför eða sýni,“ segir Margeir. Hann segist reikna með að lögregla eigi 2-3 vikur eftir af vinnu vegna rannsóknarinnar.

Aðspurður út í frekari gögn segir Margeir það meðal annars vera símagögn. „Já, það fóru fram rannsóknir á síma og tölvugögnum og öryggismyndavélum. Það er það sem styður við þann framburð og svo jú, skotvopnið.“ Ljóst sé að byssunni hafi verið stolið. Hún hafi verið lögleg hér á landi.

Hann vildi ekki tjá sig um það hvort Íslendingurinn sem í haldi er, og er sá eini í hópnum sem er íslenskur, sé höfuðpaur í málinu. Hann telur þó að lögregla muni fara fram á áframhaldandi farbann yfir manninum. „Ég held ég tjái mig ekki sérstaklega um það. Við teljum að þetta ´se skipulagt og það er eitt af því sem er enn til rannsóknar. Þó játning á morðinu sjálfu liggi fyrir eru margir aðrir þættir sem við erum að skoða.“

Hann segir þá einstaklinga sem tengjast málinu ekki hafa ferðast hingað til lands eingöngu vegna manndrápsins. „Nei ekki í þessum erindagjörðum beint en á öðrum forsendum. Þá komu þeir hingað til lands og tengist þessum, reyndar, hópum sem við erum að skoða.“

Fréttin hefur verið uppfærð.