Paul Crowther, 36 ára gamall maður, játaði á mánudag að hafa orðið Bethany Fields að bana í september á síðasta ári. Fields, sem var aðeins 21 árs, var stungin margsinnis með hníf úti á götu í miðborg Huddersfield í Jórvíkurskíri og var úrskurðuð látin á staðnum. Málið hefur vakið mikinn óhug í Bretlandi.

Bethany var frá borginni Leeds en stundaði nám í umhverfislandafræði við York-háskóla. Hún var talin úrvalsnemandi, hafði mikinn áhuga á jöklarannsóknum og dvaldi meðal annars á Íslandi hluta af sumrinu 2019 við rannsóknir. Mark E. Hodson prófessor minntist hennar skömmu eftir morðið. „Hún var áhugasöm og duglegur námsmaður og vinsæl á meðal bekkjarfélaganna,“ sagði hann. „Hún var hjartahlý, vingjarnleg og með einstaka samskiptahæfni.“

Utan námsins starfaði hún meðal annars í góðgerðarmálum fyrir fólk í félagslega slæmri stöðu, fatlað fólk og þá sem eiga erfitt með nám. Hún þótti einnig afbragðstónlistarnemi og var að læra tónlistarkennslu.

Fields fannst látin þann 12. september, laust eftir klukkan sex um kvöldið. Crowther var handtekinn skömmu síðar og kærður fyrir morðið en hann var þá enn með hnífinn á sér. Eftir handtökuna neitaði hann að hafa myrt Fields og var um tíma fluttur á réttargeðdeild til að hægt væri að meta andlega heilsu hans. Crowther hefur ekki verið samstarfsfús við lögreglurannsóknina, ítrekað neitað að yfirgefa klefa sinn og gefið lítið upp annað en nafn sitt. Lengi vel neitaði hann að hitta skipaðan lögmann sinn.

Crowther mætti fyrir rétt í Leeds á mánudag, sagði nafn sitt og viðurkenndi að hafa orðið Fields að bana, en ekki að yfirlögðu ráði. Ekkert annað vildi hann segja. Crowther var í fylgd tveggja öryggisvarða og tveggja hjúkrunarfræðinga og skalf á meðan hann gaf yfirlýsingu sína.

Saksóknarinn Jonathan Sharp sagðist búast við ákvörðun frá ákæruvaldinu innan tveggja vikna. Hvort réttað yrði yfir Crowther, eða hann dæmdur á grundvelli játningar. „Þetta er mjög viðkvæmt og tilfinningaþrungið mál,“ sagði Sharp.

Litlar upplýsingar hafa verið gefnar upp um rannsóknina og fjölskylda Fields hefur að mestu haldið sig til hlés. Á fyrstu stigum málsins, áður en nöfn Fields og Crowther voru komin fram, tilkynnti lögregla Jórvíkurskíris að um „heimilismál“ væri að ræða og hefur síðan haldið sig við þá skilgreiningu. Gefur það til kynna að Fields og Crowther hafi þekkst. Ekki hefur verið gefið upp hvernig þau þekktust.