Jarðskjálfti að stærð 4,2 mældist klukkan 17:41 um 13 kílómetra vestnorðvestur af Gjögurtá samkvæmt mælingu Veðurstofunnar.

Að sögn vakthafandi náttúruvársérfræðings mældist þar síðast skjálfti yfir 4 að stærð þann 27. júní síðastliðinn.

Hann segir að skjálftinn hafi fundist vel á Eyjafjarðarsvæðinu og sé merki um áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu. Margir minni skjálftar hafa mælst þar í dag.

Jarðskjálftahrina við mynni Eyjafjarðar norðaustur af Siglufirði hófst 19. júní síðastliðinn og hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 10 þúsund skjálfta frá því að hrinan hófst.

Að sögn Veðurstofunnar mælist enn mikið af minni skjálftum á svæðinu og eru áfram líkur á því að Norðlendingar finni fyrir fleiri stærri skjálftum.

Fréttin hefur verið uppfærð.