Jarðskjálfti að stærðinni 3,9 varð um þrjá kílómetra norður af Grindavík rétt eftir klukkan eitt í nótt. Íbúar á Reykjanesskaganum fundu fyrir skjálftanum samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar.
Í kringum hundrað eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið, stærstir þeirra voru af stærð 2,9 klukkan 01:09, 2,8 klukkan 01:17 og 2,6 klukkan 01:26. Samkvæmt veðurstofunni urðu síðast skjálftar af þessari stærð fyrir um mánuði síðan við Eldvörp á Reykjanesskaga.
Í samtali við fréttastofu RÚV segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, að ekki hafi greinst nein ummerki um gosóróa eða kvikuhreyfingar.