Jarðskjálfti að stærð 3,8 fannst vel víða á höfuðborgarsvæðinu um klukkan 10:39 í dag. Samkvæmt skráningu Veðurstofunnar á hann upptök sín um 2,6 kílómetrum suðaustur af Eiturhóli á Mosfellsheiði.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að um 130 smáskjálftar hafi mælst á sama svæði í nótt, flestir um og eftir kl. 03:30. Siðast var skjálfti yfir 3 að stærð á Hengillsvæðinu í nóvember í fyrra.

„Hann var um tvo kílómetra suðaustur af Eiturhól við Nesjavallaveg á Hengilsvæðinu. Fyrsta mat er að hann sé 3,6 en það er verið að yfirfara hann,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur, í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að skjálftinn hafi fundist vel á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel víðar, þau séu að fara yfir tilkynningar.

Á vef Veðurstofunnar má sjá að í morgun og í nótt hafa verið smáskjálftar á þessu svæði sem er nærri virku skjálftasvæði. Einar Bessi segir að upptökin séu aðeins austar en Bláfjallasvæðið og og að það sé ekki óalgengt að það verði jarðskjálftahrinur á þessu svæði.

Hann telur ekki að það sé hætta í mannabyggð en segir að eftir rólega tíð í kjölfar eldgossins sé þetta áminning um að við séum á virku jarðskjálftasvæði og að það þurfi að gæta að vörnum.

„Þetta er áminning um að við séum á þessu jarðskjálftavirka svæði og það er ýmislegt í gangi. Þetta er áminning um að huga aftur og enn þá að,“ segir Einar Bessi að lokum.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 12:10 eftir að tilkynning barst frá Veðurstofunni

Hér sést hvar upptök skjálftans voru.
Mynd/Veðurstofan
Skjálftavirknin hefur verið töluverð í morgun og nótt.
Mynd/Veðurstofan