Tveir jarðskjálftar urðu á milli 3 og 4 í nótt nærri Krýsuvík. Sá fyrri var 3,2 að stærð og seinni 2,8. Skjálftarnir fundust vel á höfuðborgarsvæðinu.

Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er um að ræða gikkskjálfta.

„Það er búin að vera nokkur skjálftavirkni þarna undanfarna daga. Það voru tveir aðeins austar að stærð 3,1 og 3,0,“ segir Bjarki.

Hann segir að það hafi alls verið 130 skjálftar frá miðnætti en að þeir hafi ekki allir verið staðsettir.

„Það er ekki gosórói eða neitt á þessu svæði. Það er ekki óalgengnt að það séu skjálftar þarna,“ segir Bjarki.