Röð jarð­skjálfta sem urðu við Hús­múla, vestan undir Hengli, frá því um klukkan tíu í gær­kvöldi tengjast lík­lega niður­rennsli jarð­hita­vatns frá Hellis­heiðar­virkjun. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Orku náttúrunnar.

Á vef Veður­stofunnar segir að skjálfti að stærð 3,1 hafi orðið tæpum þremur kíló­metrum norður af virkjuninni og hafa nokkrir smá­skjálftar mælst síðan. Hans varð vart í virkjuninni og í Hvera­gerði.

Í til­kynningunni segir að vísinda­­fólk ON telji lík­­legt að jarð­hita­­vatn, sem nýtt er í Hellis­heiða­­virkjun og dælt hefur verið í jörðina aftur eftir að orka þess hefur verið nýtt í virkjunina til að fram­­leiða raf­­­magn og sjá hita­veitunni á höfuð­­borgar­­svæðinu fyrir heitu vatni, gæti verið or­­sök skjálftanna.

Orku­vinnsla á Hengils­svæðinu á sér um 30 ára sögu.
Mynd/Anton Brink

Dæmi eru um að breytingum á niður­dælingu hafi fylgt smá­skjálfta­virkni á svæðinu en engar slíkar breytingar stóðu yfir í gær­kvöldi. Orka náttúrunnar rekur jarð­skjálfta­mæla­net á vinnslu­svæði virkjunarinnar og hafa skjálftarnir engin á­hrif haft á rekstur Hellis­heiðar­virkjunar.

„Orku­vinnsla á Hengils­svæðinu á sér um 30 ára sögu og mikið magn jarð­hita­vökva er tekið upp úr jarð­hita­kerfinu og dælt aftur niður eftir nýtingu þess í virkjunum. Á­stæða þess að vatninu er dælt niður í jörðina aftur er að það eykur sjálf­bærni jarð­hita­nýtingarinnar og dregur úr um­hverfis­á­hrifum en það er einnig skil­yrði í nýtingar­leyfi Orku­stofnunar,“ segir í til­kynningunni.