Norður-Kórea skaut í nótt sínu lengsta til­rauna­skoti með eld­flaug sem getur borið kjarn­orku­vopn. Eld­flauginni var skotið frá Norður-Kóreu og yfir Japan, yfir­völd í Japan sáu sig því knúin að senda út al­menna við­vörun til al­mennings og lestir voru stöðvaðar.

„Norður-Kórea virðist hafa skotið eld­flaug. Vin­sam­legast leitið skjóls í byggingum eða neðan­jarðar,“ sagði í við­vöruninni sem send var til al­mennings.

AP News greinir frá á­hyggjum Banda­ríkja­manna um að eld­flaugin gæti drifið að Guam, sem er banda­rískt yfir­ráða­svæði. Suður-Kóreski og banda­ríski herinn brugðust því við eld­flaugar­skotinu í nótt með því að halda skyndi­lega æfingu við strendur Kóreu­skagans.

Eld­flaugar­skotið er það um­fangs­mesta frá Norður-Kóreu á þessu ári, en mark­mið þeirra er að reyna að þróa eld­flaugar­skot sem drífur að ströndum megin­lands Banda­ríkjanna. Skotið hefur verið fjöru­tíu eld­flaugum í tuttugu mis­munandi til­rauna­skotum á þessu ári.

Brot á al­þjóða­lögum

Charles Michel, for­seti leið­toga­ráðs Evrópu­sam­bandsins, for­dæmdi til­rauna­skot Norður-Kóreu. Hann sagði það vera til­raun til þess að ógna öryggi í svæðinu, á­samt því að vera ó­rétt­mætur yfir­gangur og gróft brot á al­þjóða­lögum.

Banda­ríkin hafa einnig for­dæmt skotið og sagt það vera hættu­legt og gá­leysis­laust.

„Banda­ríkin munu halda á­fram við­leitni sinni til að tak­marka getu Norður-Kóreu til að koma bönnuðum eld­flaugum og ger­eyðingar­vopnum sínum á fram­færi, þar á meðal með banda­mönnum og með­limum Sam­einuðu þjóðanna,“ sagði tals­maður Öryggis­ráðs Sam­einuðu þjóðanna í yfir­lýsingu.

Fimmta til­rauna­skotið á tíu dögum

Á síðustu tíu dögum hefur Norður-Kórea haldið fimm til­rauna­skot þar sem prófaðar eru eld­flaugar. Yfir­völd í Norður-Kóreu segja til­rauna­skotin vera við­brögð við tveggja æfinga sem Suður-Kórea og Banda­ríkin héldu, í fyrra skiptið einungis tvö en í síðara skiptið á­samt Japan.

Norður-Kórea lítur á slíkar æfingar sem undirbúning að innrás í Norður-Kóreu.