Bólu­efni Jans­sen gegn kórónu­veirunni er ekki verra bólu­efni en bólu­efni Pfizer og Moderna eða AstraZene­ca, að því er fram kemur í fréttaskýringu bandaríska vefmiðilsins Vox. Sigur­björg Þor­steins­dóttir, ó­næmis­fræðingur við Há­skóla Ís­lands segir í svari sínu við skrif­legri fyrir­spurn Frétta­blaðsins um málið að hún mæli með því að fólk þiggi það bóluefni sem býðst. Dræm mæting var í bólusetningu með efni Janssen í Laugardalshöll í morgun.

Þúsundir Ís­lendinga hafa verið og verða bólu­settir með bólu­efninu, sem ýmis lönd líkt og Dan­mörk og Noregur hafa fúlsað við. Þannig deildi sjón­varps­maðurinn Egill Helga­son frétt Reu­ters frétta­veitunnar á föstu­daginn af því að for­svars­menn Evrópu­sam­bandsins ætli sér ekki að þiggja hundrað milljón skammta af Jans­sen.

Segir í frétt Reu­ters að á­kvörðunin sýni að lítið traust sé til bólu­efnisins, sem líkt og bólu­efni AstraZene­ca hefur verið tengt við sjald­gæf til­vik blóð­tappa. Miklar tafir hafa auk þess orðið á fram­leiðslu efnisins en 55 milljón skammtar áttu að hafa borist ESB í júní, en þeir eru nú einungis tólf.

„Nú eru ungir fjöl­skyldu­með­limir að fá boð í Jans­sen-sprautur eftir helgina. Maður heyrir að sumir eru grútspældir. Svo fer maður á netið og sér að virknin er minni en hjá öðrum bólu­efnum,“ skrifar Egill í færslu sinni fyrir helgi þar sem hann lætur fylgja með frétt Reu­ters af bólu­efna­hiki ESB.

Þá bárust fréttir af því á fimmtu­daginn að boð hefði verið gefið frjálst í Laugar­dals­höll, þar sem bólu­sett var með bólu­efni Jans­sen. Var öllum Ís­lendingum á tíma­punkti boðið að mæta í höllina og fá bólu­setningu, þar sem ekki hafði tekist að koma öllu efninu út til þeirra sem boðaðir höfðu verið í höllina.

Það tókst og kláraðist bólu­efnið síð­degis. Hingað til hefur ekki verið gripið til slíkra ráð­stafana þegar bólu­sett hefur verið með hinum bólu­efnunum og fólk sem boðað hefur verið mætt til bólu­setningar. Hið sama virðist vera uppi á teningnum í dag, bólusett er með Janssen og hafa tveir hópar til viðbótar hafa verið boðaðir í bólusetningu vegna dræmrar mætingar.

Bólu­efnin veita öll góða vernd gegn sjúk­dómnum

Fram kemur á vef Lyfja­stofnunar að virkni Jans­sen bólu­efnisins sé 67 prósent. Það er lægri virkni en í bólu­efni Pfizer, sem er með 95 prósent virkni, á meðan bólu­efni Moderna er með 94,1 prósent virkni. Á­hyggju­fullum Agli er hins­vegar bent á mynd­band banda­rísku frétta­skýringa­síðunnar Vox um bólu­efni í at­huga­semda­kerfinu við færslu hans.

Í mynd­bandinu, sem horfa á má hér að neðan, kemur fram að þó að virknin sé opin­ber­lega minni er bólu­efni Jans­sen hins­vegar fylli­lega sam­keppnis­hæft við önnur efni þegar kemur að mark­miðinu; að veita vörn gegn sjúk­dómnum CO­VID-19.

Mynd­bandið, sem titlað er „Hvers vegna þú getur ekki borið saman Co­vid-19 bólu­efni,“ fór í loftið í mars síðast­liðnum. Til­efnið voru um­mæli borgar­stjóra Detroit borgar, Mike Duggan, hafnaði bólu­efni Jans­sen/John­son&John­son undir þeim for­merkjum að borgar­búar ættu einungis að fá það besta; bólu­efni Pfizer og Moderna.

Út­skýrt er að veru­leikinn sé hins­vegar flóknari en svo. Þegar átt er við virkni er vísað til þess hve lík­legt sé að ein­stak­lingur veikist af sjúk­dómnum CO­VID-19. 95 prósent virkni þýðir því að við­komandi sé 95 prósent minna lík­legur til að veikjast í hvert sinn sem sá ein­stak­lingur smitast af veirunni.

Bent er á að rann­sóknir bólu­efna­fram­leiðandanna á sínum eign efnum séu mis­munandi og gerð í ó­líku um­hverfi. „Eitt af því stærstu um­hugsunar­efnunum þegar við horfum á þessar tölur er tíma­bilið sem þessar prófanir áttu sér stað,“ hefur miðillinn eftir De­boruh Fuller, prófessori í ör­veru­fræði við Was­hington há­skóla.

Bent er á að prófanir á Moderna bólu­efninu hafi farið al­farið fram í Banda­ríkjunum í ágúst til nóvember 2020. Hið sama hafi átt um bólu­efni Pfizer, það var prófað á ná­kvæm­lega sama tíma, þegar færri smit voru til staðar og einungis í Banda­ríkjunum.

Á meðan hafi prófanir á bólu­efni Jans­sen farið fram í októ­ber og fram í lok janúar. Þær hafi náð til fleiri landa en bara Banda­ríkjanna og voru einnig fram­kvæmdar í löndum líkt og Suður-Afríku og Brasilíu. Fjöldi sýkinga hafi ekki einungis verið hár í löndunum heldur hafi mis­munandi af­brigði af veirunni einnig komið fram á sjónar­sviðið þegar rann­sóknir voru gerðar.

Bóluefni Pfizer, Moderna og Johnson & Johnson voru prófuð á mismunandi tímum í heimsfaraldrinum.
Skjáskot/Vox

„Ef þú ætlar að bera bólu­efni saman við hvort annað, þá þarf að prófa þau í sömu rann­sókninni, undir sömu for­merkjum í sama heims­hluta á sama tíma,“ hefur Vox eftir Amesh Adalja, heil­brigðis­sér­fræðingi við John Hop­kins há­skóla. Hefðu prófanir verið gerðar á bólu­efnum Moderna og Pfizer á sama tíma og í við­komandi löndum, hefðu prósentu­tölur yfir virkni þeirra mjög lík­lega orðið öðru­vísi.

Þá bendir Amesh á að prósentu­tölurnar séu í raun alls ekki það mikil­vægasta þegar það kemur að bólu­efnunum. „Mark­mið bólu­setninga gegn CO­VID-19 er ekki endi­lega að komast að núll­punkti sýkinga, heldur að halda þessum vírusi niðri, draga úr honum tennurnar og fjar­læga getu hans til að valda al­var­legum sjúk­dómi, spítala­legu og dauða.“

Bent er á að öll eigi bólu­efnin gegn CO­VID-19, hvort sem um ræðir bólu­efni Pfizer, Jans­sen eða AztraZene­ca, það sam­eigin­legt; að gera vel í því að veita ein­stak­lingum vörn gegn sjúk­dómnum og al­var­legum á­hrifum hans.

Um­ræðan um Jans­sen lítið að gera með ó­næmi

Frétta­blaðið sendi Sigur­björgu Þor­steins­dóttur, ó­næmis­fræðingi hjá Há­skóla Ís­lands, fyrir­spurn vegna um­ræðunnar um bólu­efni Jans­sen. Hún segir að sitt per­sónu­lega við­horf sé það að allir eigi að þiggja það bólu­efni sem þeim er boðið.

„Mitt per­sónu­lega við­horf er enn og aftur þiggðu það bólu­efni sem þér er boðið þau verja öll (sem leyfð eru hér) gegn sjúk­dómi alla vega al­var­legum sjúk­dómi. Auka­verkanir eða eftir­köst eftir sýkingu eru mun verri og tíðari en eftir bólu­setningar,“ skrifar Sigur­björg.

Hún segir að Ís­lendingar séu í mikilli for­rétinda­stöðu, horfa verði á þetta í al­heims­sam­hengi „Bráða­birgða­leyfið sem sótt var um fyrir Jans­sen (John­son & John­son) var fyrir eina bólu­setningu og það var veitt,“ skrifar Sigur­björg.

„Þeir gengu sum sé út frá því í sínum rann­sóknum að gefa EINA sprautu, sem getur munað ansi miklu í fá­tækum löndum þar sem inn­viðir eru lé­legir. Þar að auki þarf ekki að geyma þetta bólu­efni frosið sem skiptir líka miklu máli fyrir notkun í fá­tækari löndum,“ skrifar Sigur­björg.

„Þessi orð­ræða hefur lítið með ó­næmis­fræði að gera en frekar pólitík. Við ættum að alltaf að hugsa um börnin í Afríku þegar við neitum bólu­setningum og hætta þessu væli og hroka.“

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, tók í svipaðan streng í Bítinu á Bylgjunni á föstu­dags­morgun. „Það eru örugg­lega margir með ein­hver ein­kenni,“ sagði Þór­ólfur og vísaði til auka­verkana vegna bólu­setninga, eins og hita og slapp­leika.

„Mér finnst full­mikið gert úr því að Jans­sen sé að valda auka­verkunum. Það er verið að gefa þau skila­boð að það sé eitt­hvað verra bólu­efni en hin en það er bara fínt bólu­efni, Jans­sen bólu­efnið. Öll þessi bólu­efni eru góð og eru að gera það sem þau eiga að gera.“