Fréttir

Þjálfari kveður niður aumingja­­væðingar­drauginn

Knatt­spyrnu­þjálfarinn Daði Rafns­son gerir til­raun til þess að kveða niður aumingja­væðingar­draug ís­lenskrar krakkaknatt­spyrnu sem lands­liðs­maðurinn Theó­dór Elmar Bjarna­son vakti upp á Twitter þar sem hann furðaði sig á medalíu­ör­læti ís­lenskra móts­haldara.

Knattspyrnuþjálfarinn Daði Rafnsson, sem meðal annars hefur mikla reynslu af þjálfun yngri flokka, bregst á Facebook við Twitter-færslu landsliðsmannsins Theódórs Elmars Bjarnasonar þar sem hann furðaði sig á þeirri lensku að allir sem taka þátt á knattspyrnumótum yngri flokka fari þaðan með medalíu, óháð árangri.

„Hvað er langt þangað til að það verður bannað að keppa á HM og allir fá bikar og medalíur fyrir að taka þátt? Getum ekki látið fólk ganga í gegnum sorgina sem fylgir því að landið þeirra detti úr leik,“ spurði Theódór Elmar á Twitter og uppskar langt og ítarlegt svar frá Daða.

„Langar að leggja orð í belg um gamlan draug sem deyr seint, vaknar alltaf upp við barna og unglingamót sumarsins og kemur meðal annars fram í meðfylgjandi tísti,“ skrifar Daði og birtir vangaveltur landsliðsmannsins.

Hann bendir síðan á að „knattspyrna barna er ekki knattspyrna fullorðinna“, „reynsluheimur barnsins er ekki eins og fullorðinna“, að þátttökuverðlaun „skipta suma litlu máli og aðra einhverju en eru ekki ábyrg fyrir allsherjar aumingjavæðingu“ og að „Ísland hefur aldrei náð betri árangri í fótbolta og hér hefur aldrei verið meiri velsæld heldur en eftir að allir urðu aumingjar.

Vitnað í speki Heimis Hallgrímssonar

„Allir sem kunna sitt fag vita að prósessinn skiptir meiru en tímabundin úrslit. Það var nákvæmlega það sem Heimir Hallgríms sagði fyrir HM, að íslensk knattspyrna stendur ekki og fellur með einu HM. Ef markmið þitt er að ala upp afreksfólk í knattspyrnu þarf það að einblína á prósessinn, og í honum felst að stundum vinnur maður og stundum tapar maður og það er lærdómur báðum megin,“ segir Daði og vísar í speki landsliðsþjálfarans Heimis Hallgrímssonar.

Lesa má alla Facebook-færslu Daða hér

Daði heldur síðan áfram og segir að í íslenskri barnaknattspyrnu sé keppt til sigurs og að allir reyni að bæta sig. Þjálfarar hafi þannig lagt mikið á sig til þess að sem flestir spili jafningjaleiki og að krakkar læri að keppa að því að ná árangri.

„Það eru fáir krakkar sem rugla saman þátttökumedalíu við það að vinna mót. Það vita allir hverjir eru í A liði, hverjir eru nýbyrjaðir og hverjir eru í fótbolta því þar fá þeir mögulega alúð og athygli sem þá skortir heima fyrir,“ skrifar Daði og heldur áfram að greina þátttökumedalíuna.

„Þátttökumedalían segir ekki að allir séu jafnir og skulu fá jafna útkomu fyrir ójafnt framlag. Það er hvergi þannig í raun og veru. Þeir sem skara framúr fá verðlaunamedalíur, bikara, unglingalandsliðssæti, fleiri áhorfendur, meiri athygli, fleiri tækifæri til að sanna sig. En þátttökumedalíur geta verið jákvæður hvati fyrir fullt af krökkum sem fá sjaldan hrós, er ekki hampað og þurfa að vera í íþróttum á eigin forsendum.“

Twitter-færsla Theódórs Elmars vakti upp draug sem Daði reyndi snarlega að kveða niður.

Allir leggja sig 100% fram

Daði segist ekki hafa þjálfað „ótrúlega mikið af krökkum“ og hann hafi ekki hitt neinn sem ekki leggur sig 100% fram á mótum, jafnvel þótt þátttökumedalíurnar hafi verið afhentar fyrir mót.

„Sumir líta mögulega út fyrir að vera ekki að teygja sig í boltann eins og leikmaður á lokamínútum jafns leiks á HM en þekktir þú sögu þeirra myndir þú skilja að vera þeirra á mótinu er sigur í sjálfu sér. Fótbolti er vinsælasta íþrótt í heimi, ekki bara útaf leiknum sjálfum heldur út af menningunni sem leyfir öllum að vera með og njóta á eigin forsendum.“

Misskilinn aumingjavæðing

„Stundum heyrist talað um að aumingjavæðing sé að fara illa með allt ungviðið okkar,“ skrifar Daði og segir þennan tón helst heyrast frá „karlmönnum, ungum sem öldnum sem hafa áhyggjur af því að ekkert megi nú lengur og að allir séu svo ofboðslega viðkvæmir fyrir öllu.“

Þrátt fyrir alla þessa aumingjavæðingu hafi þó líklega aldrei verið betra að alast upp á Íslandi og ungu fólki bjóðist vart jafn mörg tækifæri annars staðar en á Íslandi.

„Þessir aumingjans ofvernduðu krakkar hafa hvorki migið í saltan sjó né skipt um dekk og ætlast til að fá allt upp í hendurnar. En þau komast samt á EM og HM í fótbolta sem eldri kynslóðum tókst ekki. Aðrir eru tilnefndir til Grammy verðlauna eða sigra Evrópumót í frjálsum eða fimleikum. U16 ára landslið kvenna vann Þjóðverja í fyrsta sinn um daginn jafnvel þótt að ungir karlmenn sem eru hættir í fótbolta þrátt fyrir að þeim hafi verið skutlað á flestar æfingar hafi miklar áhyggjur af því að þær hafi fengið þátttökumedalíur þegar þær voru yngri.“

Þeir sem komnir eru á toppinn líti í eigin barm

„Ég hef þjálfað krakka sem höfðu náttúrulega hæfileika til jafns við aðra en áttu ekki það bakland sem gefur forskot, foreldra sem koma á leiki, borga aukaæfingar, skutla og kaupa takkaskó. Krakka sem elda sjálfir, koma sér sjálfir á æfingar, taka áætlunarrútur á mót í Keflavík þegar liðsfélögunum er skutlað. Krakka sem lifa af aðstæður sem myndu brjóta aðra niður og sigrast á raunveruleikanum. Það væri alveg hreint ótrúlega gaman að fá landsliðsmenn og atvinnumenn á æfingar hjá slíku barni til að segja við það að það sé ekki sigurvegari þótt það fái eina litla medalíu sem viðurkenningu fyrir að taka þátt í íþróttinni sem veitir því gleði og gerði þá efnaða og fræga.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Verja þurfi „frek­lega blekkta neyt­endur“

Innlent

Skárust í leikinn í slags­málum við Mela­skóla

Innlent

„Hags­munum land­búnaðarins fórnað fyrir heild­sala“

Auglýsing

Nýjast

Þykir frum­­varp um inn­flutning fela í sér upp­­­gjöf

Komin með um­boð til að slíta við­ræðum

Óska eftir vitnum að líkams­á­rásinni á gatna­mótunum

Hafnaði kröfu um lokað þing­hald

Nara hefur af­plánun: „Eitt­hvað gott kemur út úr þessu“

Hinir á­kærðu hafi gengið fram af mikilli heift

Auglýsing