Ólafur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda, segist vonast eftir léttara verk­lagi varðandi sam­komu­tak­markanir. „Við fögnum því að stjórn­völd eru farin að hafa meiri fyrir­sjáan­leika í sínum að­gerðum og segja frá sínum á­formum fram í tímann að á­kveðnum for­sendum gefnum, okkur finnst það mikil­vægt.“

Þetta snúist ekki bara um verslanir, rýmri sam­komu­tak­markanir þýði að stærri fyrir­tæki geti skipu­lagt vinnu­staði sína með hag­kvæmari hætti. „Að geta bara verið með 20 manns í hólfi, það þýðir það að finna þarf út úr ýmsu, til að mynda vakta­skiptingu. Það er ekki hag­kvæmasta nýtingin á hús­næði, til dæmis í vöru­húsum,“ segir Ólafur.

Úr Kringlunni.
Fréttablaði/Ernir Eyjólfsson

Verði fjölda­tak­markanir hækkaðar í til að mynda 50 manns verði mun auð­veldara að reka mörg fyrir­tæki. Auð­veldara sé eiga að við grímu­notkun, al­mennar sótt­varnir og tveggja metra regluna. Hækkun á sam­komu­tak­mörkunum muni gera rekstur margra fyrir­tækja auð­veldari og hag­kvæmari. Hann segir þó ekki mörg fyrir­tæki í sam­tökunum þar sem starfa vana­lega fleiri en 50 í sama rýminu.

„Við erum líka að vonast eftir ein­hverjum rýmkunum varðandi skóla- og fræðslu­starf. Við erum með innan okkar raða einka­rekin fræðslu­fyrir­tæki. Það hefur tals­vert hamlað þeirra starf­semi þetta 30 manna há­mark í rými, inn í því eru leið­bein­endur og annað slíkt. Því er verið að vinna með mun fá­mennari hópa en venju­lega og að sama skapi verður það ó­hag­kvæmari rekstur,“ segir Ólafur enn fremur.

Í Fé­lagi at­vinnu­rek­enda eru fyrir­tæki sem starfa tengt ferða­þjónustu. Ólafur tekur undir með Þór­ólfi Guðna­syni sótt­varna­lækni að fylgjast þurfi með því hvernig nýtt fyrir­komu­lag á landa­mærunum þróast. Nú þurfa þeir sem til landsins koma að fram­vísa nei­kvæðu PCR-prófi á­samt því að fara í tvær skimanir og sótt­kví á milli.

Þau á­form að af­létta seinni skimun og þar með sótt­kví þar á milli ættu að geta greitt tals­vert fyrir komu ferða­manna til landsins að mati Ólafs. Gott sé að reynsla komist á nú­gildandi fyrir­komu­lag svo hugsan­lega verði hægt að draga úr að­gerðum á landa­mærunum, „svo það verði ein­hver opnun undir sumar­byrjun,“ segir Ólafur. „Það eru margir sem binda miklar vonir við það.“

Skimun á Keflavíkurflugvelli.
Fréttablaðið/Valli

Varðandi á­hrif CO­VID-19 far­aldursins á fyrir­tæki í sam­tökunum segir hann þau hafa verið æði mis­jöfn. „Það er tals­vert mis­munandi hvernig fyrir­tæki hafa farið út úr þessu en á heildina litið hefur þetta verið býsna erfitt.“ Rekstur tengdur ferða­þjónustu, veitinga­þjónustu og af­þreyingu hafi átt undir högg að sækja vegna sam­komu­tak­markana og þess háttar að­gerða.

Eftir­spurn eftir mat­vöru á neyt­enda­markaði hafi aukist þar sem fólk sé minna á ferðinni og sama megi segja um raf­tæki, líkt og af­þreyingar­tæki. „Fólk er að hreyfa sig heima hjá sér,“ segir Ólafur og bendir á að aukin sala hafi verið á í­þrótta­fatnaði og búnaði því tengdum.

Að­spurður hvort fyrir­tæki í Fé­lagi at­vinnu­rek­enda óttist að þegar auð­veldara verði fyrir Ís­lendinga að ferðast dragi úr neyslu innan­lands segir Ólafur að hann hafi rætt við ýmsa fyrir­tækja­eig­endur sem séu með þetta „bak við eyrað.“ Þetta eigi einkum við rekstrar­aðila í þeim greinum þar sem vel hafi gengið í far­aldrinum, vegna aukinnar eftir­spurnar innan­lands á neyt­enda­markaði. Eftir­spurn geti breyst mjög hratt ef ferða­lög verði auð­veldari og fólk fari aftur að eyða meira í ferða­lög og verslun er­lendis.

„Því miður hillir nú ekki alveg undir það alveg á næstunni þannig að manni sýnist að það verði á­fram um­tals­verð vand­kvæði á ferða­lögum landans,“ segir Ólafur að lokum.