Fimm af þeim átta einstaklingum sem greindust með innanlandssmit í gær voru í sóttkví. Að sögn sóttvarnarlæknis er það jákvætt merki að hlutfall þeirra sé að hækka en bendir á að þetta sé sveiflukennt.

Raðgreining sýnanna hefur leitt í ljós að um er að ræða sömu gerð veirunnar og hefur sést í annarri af tveimur hópsýkingum sem eru í gangi.

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi í dag að öll tilfellin sem hafi greinst í gær hafi verið á höfuðborgarsvæðinu.

80 einstaklingar eru nú með virkt smit hér á landi og er staðan í dag eins og hún var þann 10. mars síðastliðinn. Eru virk smit í öllum landshlutum nema á Austurlandi.

3.300 einstaklingar hafa verið skimaðir hjá Íslenskri erfðagreiningu frá því að fyrirtækið hóf skimun á ný. Þar af hafa tveir greinst með smit.

Sagði Þórólfur þær niðurstöður renna stoðum undir að samfélagslegt smit sé ekki mjög útbreitt, eða hjá undir 0,1% íbúa.

Fréttin hefur verið uppfærð.