Rúmlega fjörutíu prósent svar­enda í nýrri könnun Prósents telja Ís­land taka við of fáum flótta­mönnum. 37,1 prósent telja Ís­land taka við hæfi­legum fjölda en 22,4 prósent að of margir flótta­menn fái hæli hér á landi.

Afar mikill munur er á svörum eftir aldri og sker elsti aldurs­hópurinn, 65 ára eða eldri, sig á­berandi frá hinum. 43 prósent elstu svar­endanna telja Ís­land taka við of mörgum flótta­mönnum. Í öllum öðrum aldurs­hópum er hlut­fallið undir 24 prósentum og að­eins 14 prósent í aldurs­hópnum 25 til 34 ára. Það er ein­mitt sá aldurs­hópur sem telur Ís­land ekki vera að taka við nógu mörgum. 56 prósent þeirra telja að taka ætti við fleirum.

Munurinn á af­stöðu til fjölda flótta­manna er til­tölu­lega lítill þegar kemur að tekju­hópum og nánast enginn þegar kemur að kynjum. Nokkur munur kemur hins vegar fram þegar litið er til bú­setu. Á höfuð­borgar­svæðinu telja 20 prósent að Ís­land taki við of mörgum flótta­mönnum en 45 of fáum. Á lands­byggðinni eru hlut­föllin hníf­jöfn, 29 prósent.

Mikill munur kemur fram þegar litið er til stjórn­mála­skoðana og tveir flokkar skera sig úr í nei­kvæðri af­stöðu gagn­vart flótta­mönnum. 63 prósent kjós­enda Mið­flokksins telja Ís­land taka við of mörgum flótta­mönnum og 55 prósent kjós­enda Flokks fólksins.

Rúmur þriðjungur Sjálf­stæðis­manna, 35 prósent, telja Ís­land taka við of mörgum flótta­mönnum en að­eins 19 prósent of fáum. Fram­sóknar­menn eru sáttastir við það magn sem hingað kemur, 58 prósent þeirra telja það hæfi­legt en hlut­föll Fram­sóknar­manna sem telja fjöldann of lítinn eða mikinn eru nokkurn veginn jöfn.

16 prósent Sósíal­ista telja Ís­land taka við of mörgum flótta­mönnum en hlut­fallið er innan við 10 prósent hjá Vinstri grænum, Pírötum, Sam­fylkingar­fólki og Við­reisnar­fólki. Um helmingur kjós­enda vinstri­flokkanna, Sósíal­ista og Vinstri grænna, telur Ís­land taka við of fáum en um 70 prósent kjós­enda frjáls­lyndu flokkanna, Pírata, Sam­fylkingarinnar og Við­reisnar.

Könnunin var fram­kvæmd 2. til 13. júní. Úr­takið var 1.780 og svar­hlut­fallið 50,1 prósent.

Rúmlega fjörutíu prósent svar­enda í nýrri könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið telja Ís­land taki við of fáum flótta­mönnum.