Sextíu prósent landsmanna eru fylgjandi afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna, samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þetta er umtalsverð breyting en í sambærilegum könnunum árin 2015, 2017 og 2019 studdi um þriðjungur afglæpavæðingu.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði, telur öruggt að frumvörp Pírata og heilbrigðisráðherra og umræðan í kringum þau hafi haft áhrif á viðhorf landsmanna. Helgi ásamt félagsfræðingnum Jónasi Orra Jónassyni lét gera könnunina. „Fyrir tveimur árum vissu fáir um hvað afglæpavæðing neysluskammta væri,“ segir Helgi. „Nú er mikil umræða og ráðandi aðilar í samfélaginu farnir að tala fyrir henni.“

Í gegnum árin hafa flestir sagt fíkniefnabrot vera þau sem valdi mestum vanda á Íslandi en í hinni nýju könnun er sá málaflokkur aðeins í þriðja sæti með 23 prósent. Flestir, 30 prósent, telja kynferðisbrot alvarlegust og þar á eftir koma efnahagsbrot með 26 prósent, sem mældust lágt fyrir bankahrun.

SAXoPicture-07571EF8-574568277.jpg

Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði

Helgi segir að stígandi hafi verið í umræðunni um kynferðisbrot síðan 2013, meðal annars vegna barnaníðsmála, Metoo-byltingarinnar og umræðu um stafrænt kynferðisofbeldi. Þá sé í auknum mæli farið að líta á fíkniefnamál sem heilbrigðismál en ekki afbrot. „Það hefur dregið úr óttanum gagnvart fíkniefnum og fólk er tilbúið að leita nýrra leiða til að takast á við þau,“ segir hann.

Þessi mikla viðhorfsbreyting nær hins vegar ekki til lögleiðingar nema að litlu leyti, en í könnuninni var sérstaklega spurt um kannabisefni. Rúmur þriðjungur er fylgjandi lögleiðingu og dvínar stuðningurinn með aldrinum. Mikill munur er á kynjunum, tæpur helmingur karla vill lögleiða kannabis en aðeins fjórðungur kvenna.

Það sem kemur Helga hvað mest á óvart er hversu margir telja auðvelt að útvega fíkniefni, sé áhugi fyrir því. 70 prósent töldu það auðvelt, þar af 80 prósent undir þrítugu og helmingur yfir sextugu. Helgi segir að þetta bendi til þess að hér sé nú þegar tiltölulega opinn og aðgengilegur markaður fyrir fíkniefni, sérstaklega með tilkomu netsins og samfélagsmiðla. Einnig að fólk haldi að það sé auðvelt að útvega efni, í ljósi umræðunnar, án þess að hafa reynt það sjálft.