Ha? kunna sumir að segja, á meðan aðrir eru mér hjartanlega sammála. Það eru meira að segja til rannsóknir sem sýna fram á að jákvætt og hamingjusamt fólk er líklegra til að hafa sterkara ónæmiskerfi, jafna sig hraðar á áföllum og veikindum auk þess að sjá tækifæri í því sem aðrir gætu upplifað sem vandamál sem er ótvíræður kostur og gífurlega mikilvægt.


Hlátur er líklega eitt besta meðalið sem við þekkjum og því nauðsynlegt fyrir okkur að hlæja nokkrum sinnum á dag. Það lækkar blóðþrýsting og víkkar æðarnar með hjálp nituroxíðs, lækkar streituhormón eins og kortisol og leysir úr læðingi endorfín sem er náttúrulegt verkjalyf líkamans. Þá er einnig búið að sýna fram á aukna T-frumu virkni ónæmiskerfisins og þar af leiðandi bættar varnir við smitsjúkdómum, fyrir utan þá gleði sem fylgir því að hlæja og vera í kringum fólk sem brosir og geislar af vellíðan. Hláturjóga er til dæmis eitt form sem er mjög áhrifaríkt og heilsubætandi, fyrir utan hvað það er skemmtilegt.

Eitt af grundvallaratriðunum við hamingju er umgengni við annað fólk á öllum aldri og samskipti við þá sem standa manni næst. Rannsóknir hafa staðfest að sterk félagsleg tengsl eru einn sterkasti þátturinn sem stuðlar að góðri líkamlegri og andlegri heilsu. Það á við um eiginlega alla og því mikilvægt að rækta þau sem mest og best. Gerðu þér far um að hitta vini og kunningja, fjölskyldu og vini, taktu þátt í félagsstarfi eða skipulögðum athöfnum hvers kyns. Einmanaleiki er eitur og ber að forðast eins og heitan eldinn. Það er mikill munur á því að vilja vera einn og njóta kyrrðar og friðar eða vera einmana og upplifa sig afskiptan.

Ég hef haldið fyrirlestra undanfarið um það að njóta lífsins, fléttað saman við heilsufar og áhættuþætti þess, þar sem hafa spunnist líflegar umræður um samhengi hlutanna. Nær undantekningarlaust hafa komið upp nýir fletir, sjónarmið og hugmyndir frá áheyrendum sem sýnir hversu mikilvæg andleg og líkamleg líðan okkar er. Það er hægt að fylla margar greinar um einstaka sjúkdóma og tengingu þeirra við líðan einstaklingsins bæði sem orsök og afleiðingu. Máttur hugans er mikill og hefur það sýnt sig ítrekað í gegnum tíðina að sjálfstraust og viljastyrkur þarf ekki að vera í neinu samhengi við líkamlegt atgervi, en fari slíkt saman verður það verulega áhugavert.


Það er vitaskuld ekki til nein ein leið að settu marki, enda óraunsætt, hitt er þó ljóst að það eru ákveðin lykilatriði sem allir verða að hafa í huga. Hugsaðu um sjálfan þig því einungis þannig getur þú hugsað um aðra, gerðu alltaf þitt besta og vertu stolt/ur af því, sýndu þolinmæði og þrautseigju. Hugsaðu jákvætt og gefðu bros og hlýju, þú færð það margfalt til baka!