Nær 85 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins eru jákvæð gagnvart ferðamönnum og yfir 93 prósent segjast aldrei eða sjaldan hafa orðið fyrir ónæði frá ferðamönnum við heimili sitt. Nær 87 prósent telja erlenda ferðamenn fremur eða mjög vinsamlega í samskiptum við íbúa. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem Maskína vann fyrir Höfuðborgarstofu nú í apríl og birt var í gær.

Könnunin fjallaði um viðhorf til ferðaþjónustu og ferðamanna og var lögð fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu 6. til 25. apríl síðastliðinn. Niðurstöðurnar sýna að íbúar telja jákvæðar hliðar ferðaþjónustu vega þyngra en neikvæðar og telja hagsmuni sína og ferðamanna fara vel saman.

„Við fögnum þessum niðurstöðum enda leggur Reykjavíkurborg mikla áherslu á að ferðaþjónustan sé jákvæður drifkraftur sem þróast í góðri sátt við íbúa, atvinnulíf, umhverfi og menningu,“ segir Lína Petra Þórarinsdóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu.