„Þó að staðan sé enn alvarleg erum við farin að sjá hughreistandi merki,“ segir Hans Kluge, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Þó að kórónuveiran sem veldur Covid-19 dreifi sér um heimsbyggðina á miklum hraða hefur heldur hægst á útbreiðslu hennar á Ítalíu. Rúmlega 7.500 manns hafa látist til þessa á Ítalíu og tæplega 75 þúsund smitast.

Samkvæmt nýjum tölum frá Ítalíu virðist vera að hægjast á útbreiðslu veirunnar og þá létust færri á Spáni síðasta sólarhringinn en sólarhringinn þar á undan.

Kluge segir að þessar upplýsingar séu hvetjandi en að sama skapi megi ekki draga of miklar ályktanir út frá þeim.

Yfirvöld á Spáni tilkynntu í morgun að 655 hefðu látist síðasta sólarhring af völdum Covid-19, nokkuð færri en sólarhringinn þar á undan þegar rúmlega 700 létust. Fernando Simon, yfirmaður almannavarna á Spáni, sagði við spænska fjölmiðla í gær að ef toppnum væri ekki nú þegar náð í faraldrinum væri mjög stutt í hann.

Samkvæmt tölum Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hafa rúmlega 220 þúsund tilfelli Covid-19 komið upp í Evrópu síðan veiran lét fyrst á sér kræla. Tæplega tólf þúsund hafa látist.