Nýtt lyf sem á að hægja á á­hrifum tauga­sjúk­dómsins MND er komið með markaðs­leyfi vestan­hafs. For­maður MND á Ís­landi segir að þó að ekki sé um að ræða lækningu gæti þetta markað tíma­mót í með­ferð við sjúk­dómnum.

heil­brigðis­mál Banda­ríska mat­væla- og lyfja­eftir­litið (FDA) sam­þykkti um helgina nýtt lyf fyrir ein­stak­linga sem hafa greinst með MND-sjúk­dóminn eftir að rann­sóknir sýndu fram á já­kvæða virkni þess. Í rann­sókn á virkni lyfsins kom fram að hjá þeim ein­stak­lingum sem fengu að nota lyfið hægðist á á­hrifum sjúk­dómsins um 25 prósent.

„Það eru ris­a­f­réttir að eitt­hvert lyf sé sam­þykkt en kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið. Það á enn eftir að semja um verð á lyfinu og alls konar reglu­verk er­lendis áður en það fer á markað, en þetta er vissu­lega skref í rétta átt,“ segir Guð­jón Sigurðs­son, for­maður fé­lagsins MND á Ís­landi, spurður út í tíðindin.

MND er ban­vænn sjúk­dómur sem herjar á hreyfi­taugar líkamans og á­gerist hratt. Ein­staklingar sem greinast með MND missa smám saman máttinn og lamast þó að vits­muna­legur styrkur haldist iðu­lega sá sami.

Um 20 til 30 ein­staklingar eru með MND á Ís­landi hverju sinni og greinast sex á hverju ári en um leið látast um sex sam­kvæmt töl­fræði MND-fé­lagsins. Enn er engin lækning eða með­ferð til sem læknar sjúk­dóminn.

Ef þetta hægir á lömuninni eða stoppar þig þar sem þú ert, þá er það á­kveðinn sigur.

Lyfið sem um ræðir, Relyvrio, veitir tíma­bundna vernd fyrir tauga­frumur í heila og mænu sem MND-sjúk­dómurinn ræðst gegn og getur þannig frestað lömunar­á­hrifum hans um tíma. „Þetta gefur MND-sjúk­lingum fleiri mögu­leika á með­ferð við ó­læknandi sjúk­dómi,“ kemur fram í yfir­lýsingu frá FDA.

„Þetta er fjórða lyfið sem er sam­þykkt í Banda­ríkjunum við MND á meðan við höfum að­eins eitt. Þó að það sé búið að sam­þykkja notkun þess í Banda­ríkjunum er ekki víst að það verði notað hér, en þetta lyf lofar það góðu fyrir MND-sjúk­linga að ég held að þau komist ekki hjá því að leyfa notkun þess. Um leið er það undir ís­lenskum læknum komið að sýna á­huga á að nota lyfið og koma boltanum af stað,“ segir Guð­jón.

Hann segir að þó að ekki sé um að ræða eigin­lega lækningu geti þetta haft veru­leg á­hrif á dag­legt líf hjá ein­stak­lingum sem hafi greinst með MND.

„Ef þetta hægir á lömuninni eða stoppar þig þar sem þú ert, þá er það á­kveðinn sigur. Ein­staklingar sem greinast með MND lifa iðu­lega í þrjú til fimm ár þótt það sé mis­munandi. Ef það er hægt að koma í veg fyrir að ein­stak­lingum hraki jafn mikið eykst vonin og um leið vonin til að lækning finnist á endanum,“ segir Guð­jón.

Guðjón Sigurðsson, formaður MND á Íslandi.
Mynd/aðsend

Rúna Hauks­dóttir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofnunar, segir að lyfið sé í skoðun hjá Evrópsku lyfja­stofnuninni og það gæti því staðið til boða fyrir Ís­lendinga innan skamms.

„Evrópska lyfja­stofnunin er með svo­kallað mið­lægt markaðs­leyfi, ef lyfið fær markaðs­leyfi í Evrópu fær það markaðs­leyfi hér á landi, líkt og bólu­efni. Lyfið er í um­sóknar­ferli hjá Evrópsku lyfja­stofnuninni en ég er ekki með ná­kvæma stöðu á hvar það er í ferlinu,“ segir Rúna, að­spurð hvað þyrfti til þess að lyfið fengi markaðs­leyfi hér á landi.

„Hins vegar er lyfið ekki komið með markaðs­leyfi í Evrópu en komið með markaðs­leyfi í Banda­ríkjunum og Kanada og þá getur fólk óskað eftir undan­þágu fyrir notkun þess. Það yrði skoðað með til­liti til þess hvort hægt væri að fá lyfið, hver geti flutt það inn og hvernig það er greitt.“