Dómstólasýslan birti í dag sína fyrstu ársskýrslu en í henni er að finna samantekt á helstu verkefnum stofnunarinnar á fyrsta starfsári hennar og tölfræðiupplýsingar um dómsmál dómstiganna þriggja árið 2018. Miklar breytingar eru í gangi innan dómskerfisins og má tala um sannkallaða tæknivæðingu innan þess.

Breytingar í rétta átt

Miklar breytingar eru í gangi innan dómskerfis Íslands en eins og flestir vita var nýju dómstigi komið á fót 1. janúar 2018, Landsrétti. Í kjölfarið var dómstólasýslan stofnuð en hún er sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem annast sameiginlega stjórnsýslu dómstiganna og er ætlað að samræma innri starfsemi þeirra.

Meðal þeirra verkefna sem dómstólasýslan hefur ráðist í er að setja upp hljóð- og myndupptökukerfi í dómsölum. Þá verður tölvu- og tækjabúnaður héraðsdómstólanna endurnýjaður og miðað að því að við vinnslu dómsmála verði í auknum mæli stuðst við rafræna ferla. Þá var ný málaskrá Landsréttar tekin í notkun í byrjun árs 2018 og er verið að innleiða hana inn í héraðsdómstólana. Henni er ætlað að auðvelda þróun og vinnu við rafræna málsmeðferð og gera dómstigunum kleift að senda málsgögn rafrænt á milli sín.

Í samtali við Fréttablaðið sagði Benedikt Bogason, hæstaréttardómari og formaður stjórnar dómstólasýslunnar, að svo sannarlega megi tala um tæknivæðingu í dómskerfinu. „Að sjálfsögðu auðveldar þetta vinnu mála mikið,“ segir Benedikt. „Málaskráin í héraði var frá árinu 1994 eða 95 að mig minnir og hún var orðin svo úrelt að búast mátti við að hún hrindi þá og þegar. Þannig þetta var orðið löngu tímabært og er gríðarlega mikilvæg breyting.“

Benedikt Bogason, hæstaréttardómari og formaður stjórnar dómstólasýslunnar.

Nýtt hlutverk Hæstaréttar

Ljóst er að margt breyttist við stofnun nýja dómstigsins. Hæstiréttur gegnir ekki lengur tvíþættu hlutverki; að vera áfrýjunardómstóll og fordæmisgefandi dómstóll, heldur hefur Landsréttur tekið við því hlutverki að vera áfrýjunardómstóll. Þannig er nú aðeins hægt að kæra eða áfrýja til Hæstaréttar að fengnu leyfi réttarins.

Heildarfjölda innkominna mála hjá Landsrétti árið 2018 var 941 sem er svipað og hjá Hæstarétti á árinu á undan. Þannig má sjá að málum hjá Hæstarétti fækkar allgífurlega en nýskráð mál hjá réttinum voru einungis 38 árið 2018. Hann lauk þó einnig meðferð 270 einkamála á árinu sem áfrýjað var áður en Landsréttur hóf störf.

Aðspurður segir Benedikt nýja dómstigið hafa reynst ágætlega. „En hins vegar hefur borið þann skugga á að fjórir dómara réttarins eru ekki starfandi eftir niðurstöðuna frá því 12. mars úti í Strasbourg.“ Benedikt vitnar þá í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu sem leiddi til þess að Sigríður Á. Andersen sagði af sér embætti dómsmálaráðherra.

„Það er ekki lengi hægt að búa við það ástand að fjórir dómarar dómstigsins séu ekki að dæma í málum. Ef að ekki verður brugðist við mun málatíminn við Landsrétt fara að lengjast og fjöldi mála sem bíða meðferðar aukast,“ segir Benedikt og kallar eftir lausnum í þessu gríðarlega stóra máli.

Um 20% áfrýjaðra mála snúið

Þá kemur fram í skýrslunni að af þeim 270 málum sem Hæstiréttur lauk við árið 2018 gengu dómar í 249 málum en 21 mál var fellt niður. Í 62% af þessum málum staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms, 9% þeirra var breytt að einhverju leyti og 9% þeirra niðurfelld, ómerkt eða vísað frá. Þá var dómi héraðsdóms breytt verulega eða snúið við í 20% tilvika.

Svipuðum fjölda mála sem áfrýjað var til Landsréttar árið 2018 snúið eða breytt verulega, 21% mála. Alls lauk 159 áfrýjuðum einkamálum með dómi Landsréttar og var niðurstaða héraðsdóms staðfest í 52% tilvika. Þá var 11% mála breytt að einhverju leyti en 26% þeirra voru ómerkt eða vísað frá.

Lyktir áfrýjaðra einkamála fyrir Hæstarétt annars vegar og Landsrétt hins vegar árið 2018.

Réttarkerfið náð jafnvægi eftir hrun

Héraðsdómstólum bárust tæplega 15 þúsund mál árið 2018 sem er nálægt meðaltali mála síðustu fimm árin á undan. Í skýrslunni segir að af því megi draga þá ályktun að réttarkerfið hafi sennilega náð jafnvægi eftir þann málafjölda sem kom í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þannig bárust rúmlega 33 þúsund mál til héraðsdómstólanna árið 2009.

„Við erum komin aftur inn í eðlilegt ástand,“ segir Benedikt. Ástandið eftir hrun hafi í raun verið með ólíkindum og þar sem hann fer yfir atriði skýrslunnar minnist hann þess gríðarlega álags sem fylgdi hruninu. „Og dómskerfið stóðst þessa þolraun með miklum sóma, að mínu mati,“ heldur Benedikt áfram. „Málin voru ekki bara mörg heldur gríðarlega þung og menn höfðu mikilla hagsmuna að gæta á þessum tíma.“ Álaginu var til dæmis mætt með fjölgun dómara í dómstigunum tveimur sem þá voru starfandi en þeim hefur eðlilega verið fækkað á ný.