„Ég geng heils hugar til liðs við þau góðu stefnumál og ekki síst þann málstað réttlætis og mannúðar sem Flokkur fólksins boðar,“ segir Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður, sem skipa mun fyrsta sæti á lista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum í september.

„Ísland er í hópi auðugustu samfélaga heims og okkur ber að rétta án tafar hlut þeirra sem festir hafa verið í fátæktargildru þeirra neyðarlaga sem hér voru sett á eftir hrun og valda því að tugþúsundir einstaklinga búa við kröpp kjör að afloknu ævistarfi sínu, að ekki sé talað um þá sem orðið hafa fyrir áföllum, lent í slysum eða búa við skerta orku. Ég mun beita mér af alefli til að þetta verði leiðrétt og geng til þeirra verka með trú, von og kærleika að leiðarljósi,“ segir Jakob.