„Á­kveðin tíma­mót urðu á fjöl­miðla­ferli okkar beggja í liðinni viku þegar sett var af stað her­ferð til að reyna að þagga niður um­fjöllun DV um Jakob Frí­mann Magnús­son, odd­vita Flokks fólksins.“

Þannig hefst yfir­lýsing Björns Þor­finns­sonar og Erlu Hlyns­dóttur, rit­stjóra og að­stoðar­rit­stjóra DV sem birt er á vef DV með yfir­skriftinni „Beittu barni til að stöðva frétt“.

Þau segja sig ekki geta orða bundist yfir þöggunartilburðunum í kjölfar fréttarinn, sér­stak­lega á tímum þar sem sí­fellt er sótt harðar að blaða­mönnum fyrir störf sín. Alvarlegast af öllu sé að barninu sem fréttin fjalli um hafi verið beitt til að stöðva framgang hennar.

Tveggja sólarhringa áreitni

Í yfir­lýsingunni greina þau Björn og Erla frá því hvernig þau máttu þola tveggja sólar­hringa á­reitni frá aðilum ná­tengdum Jakobi Frí­manni. Var það vegna frétta­flutnings DV þann 8. septem­ber með fyrirsögninni „Jakob Frímann sakaður um að beita blekkingum til að koma barni úr landi“.

Fréttin fjallaði um meintar blekkingar Jakobs Frímanns við gerð svo­kallaðs liprunar­bréfs sem af­hent var utan­ríkis­ráðu­neytinu til að koma barni úr landi. Jakob Frímann og faðir þess, sem bú­settur er er­lendis, eru tengdir vina­böndum.

Jakob Frí­mann er í fram­boði fyrir Flokk fólksins fyrir Al­þingis­kosningarnar 25. septem­ber.

Móðir umrædds barns sakaði Jakob Frí­mann um að hafa mis­notað stöðu sína, sem þjóð­þekktur ein­stak­lingur og fyrr­verandi starfs­maður utan­ríkis­ráðu­neytisins, til að aðstoða föður þess í koma því úr landi. Ráðu­neytið bað móður þess af­sökunar vegna málsins og í­trekaði hana síðar. Hún leitaði til lög­reglu og fór fram á að rann­sókn yrði hafin á fram­göngu Jakobs Frí­manns í málinu.

Elítan vill koma í veg fyrir umfjöllun

Erla og Björn segja aldrei hafa upp­lifað annað eins á ferli sínum í blaða­mennsku, sem saman­lagt er um aldar­fjórðungur, og í þessu máli. Þau hafi fjallað um margt af því fólki sem kalla mætti það hættulegasta á Íslandi.

„En þetta eru ekki þeir sem eru endi­lega lík­legastir til að reyna að hafa á­hrif á og koma í veg fyrir um­fjöllun. Nei, það er elíta Ís­lands – fólkið sem heldur að það sé betra en aðrir. Þetta er ríka fólkið, fína fólkið, fræga fólkið. Þetta eru þau sem miskunnar­laust beita sér og finnst ó­sann­gjarnt að það hljóti sömu með­ferð aðrir í fjöl­miðlum þegar þau gerast sek um mis­gjörðir, upp komist um mis­tök þess eða jafn­vel af­brot,“ segir í yfir­lýsingunni.

Nokkrum mínútum eftir að Erla hafði sam­band við Jakob Frí­mann til að gefa honum kost á að svara fyrir að­komuna sína að málinu tóku viðbrögð að berast. „Í kjöl­farið hófst tveggja sólar­hringa á­reitni í garð okkar beggja, Björns en þó aðal­lega Erlu, þar sem mark­miðið var að koma í veg fyrir að þessi frétt myndi nokkurn tímann birtast. Okkur voru gerðar upp annar­legar hvatir, reynt að láta okkur fá sam­visku­bit yfir því að vera að eyði­leggja pólitískan feril Jakobs og ekki síður þau mikil­vægu mál­efni sem hann væri að berjast fyrir. Við vorum bein­línis beitt and­legu of­beldi og okkur hótað því að birting fréttarinnar myndi hafa af­leiðingar fyrir okkur per­sónu­lega.“

Auk þess segja þau Björn og Erla að bak við tjöldin hafi önnur her­ferð farið af stað. Þrýst hafi verið á stjórn­endur Torgs, út­gáfu­fyrir­tækis DV sem einnig gefur út Frétta­blaðið, til að stöðva birtingu fréttarinnar. Þau segja blekkingum hafa beitt í þessum tilgangi en ekki er vikið að því í hverju þær fólust. Stjórn­endur fyrir­tækisins hafi sem betur fer staðið með frétta­flutningnum og eigi fyrir það þakkir skyldar segja þau Björn og Erla.

Segja barninu verið beitt til að stöðva fréttina

„Al­var­legast af öllu var sú fyrir­lit­lega að­ferð að láta barnið, sem statt var er­lendis hjá föður sínum og hefði aldrei þurft að vera upp­lýst um fréttina eða að málið tengdist því, var látið hringja í­trekað í Erlu auk þess sem bréf í nafni þess voru send á stjórn­endur fyrir­tækisins. Þar var okkur blaða­mönnum gefið að sök að ætla að velta okkur upp úr for­ræðis­málinu og eyði­leggja líf barnsins.“

Þetta segja þau svo viður­styggi­legt að þau hafi ekki séð sér ekki fært annað en að til­kynna málið til barna­verndar­yfir­valda, í fyrsta sinn á sínum ferli.