„Heldurðu að maður grípi ekki svona tæki­færi þegar það kemur fljúgandi á 180 kíló­metra hraða í fangið á manni?“ spyr Ör­lygur Hnefill Ör­lygs­son sem opnaði í dag kaffi­húsið og barinn Jaja Ding Dong á Húsa­vík. Hann hafði á­kveðið að opna staðinn í sumar undir allt öðru nafni en þegar hann sá Euro­vision-mynd Will Ferrells á­kvað hann snar­lega að breyta því.

Ör­lygur á hótelið Cape Hotel á Húsa­vík og er nýi staðurinn sam­tengdur hótelinu. „Við smíðuðum svona úti­bar við hótelið og gáfum honum þetta á­gæta nafn. Hér er aðal­lega hægt að fá bjór og drykki en svo erum við með léttari rétti líka; bæði bökur og kökur,“ segir hann.

Will Ferrell og Pi­erce Brosnan kíktu í heimsókn

„Það var svo skemmti­legt hérna í fyrra þegar þeir komu að taka upp þessa mynd og voru að þvælast mikið héra um í kring hjá okkur. Þeir komu nú báðir hingað til að kíkja á okkur, Will Ferrell og Pi­erce Brosnan,“ segir Ör­lygur.

„Svo náttúru­lega kemur þessi mynd út sem við litum nú bara á sem hálf­gerðan óð til bæjarins - sér­stak­lega út af þessu lagi,“ heldur hann á­fram og á þá við lagið Húsa­vík – My Home Town, eða Húsa­vík - heima­bærinn minn, sem Rachel M­cA­dams flytur í myndinni og á þar að vera fram­lag Ís­lands til Euro­vision-keppninnar. „En Jaja Ding Dong er auð­vitað hittarinn úr myndinni þó að við séum hrifin af Húsa­víkur­laginu. Við förum ekki að kalla barinn Húsa­vík,“ út­skýrir Ör­lygur.

Sjálfur segist hann hafa haft gaman af myndinni. „Við höfðum húmor fyrir því sem var í henni. Það voru ein­hverjir sem héldu að okkur hefði eitt­hvað sárnað því það hefði verið gert svo mikið grín af Hús­víkingum en okkur fannst þetta al­gjör snilld. Þetta var bara eins og sér­hannað ára­móta­skaup fyrir okkur.“

Euro­vision-myndin og þáttur Húsa­víkur í henni hefur vakið þó­nokkra at­hygli um heim allan. Ör­lygur segir myndina ó­metan­lega aug­lýsingu fyrir bæjar­fé­lagið: „Þetta er verð­mætt tæki­færi sem kemur ekki til allra og kemur ekki oft. Og það er gríðar­lega mikil­vægt að mínu viti að menn séu hug­mynda­ríkir að nýta sér þetta.“

Mynd/Facebook