„Heldurðu að maður grípi ekki svona tækifæri þegar það kemur fljúgandi á 180 kílómetra hraða í fangið á manni?“ spyr Örlygur Hnefill Örlygsson sem opnaði í dag kaffihúsið og barinn Jaja Ding Dong á Húsavík. Hann hafði ákveðið að opna staðinn í sumar undir allt öðru nafni en þegar hann sá Eurovision-mynd Will Ferrells ákvað hann snarlega að breyta því.
Örlygur á hótelið Cape Hotel á Húsavík og er nýi staðurinn samtengdur hótelinu. „Við smíðuðum svona útibar við hótelið og gáfum honum þetta ágæta nafn. Hér er aðallega hægt að fá bjór og drykki en svo erum við með léttari rétti líka; bæði bökur og kökur,“ segir hann.
Will Ferrell og Pierce Brosnan kíktu í heimsókn
„Það var svo skemmtilegt hérna í fyrra þegar þeir komu að taka upp þessa mynd og voru að þvælast mikið héra um í kring hjá okkur. Þeir komu nú báðir hingað til að kíkja á okkur, Will Ferrell og Pierce Brosnan,“ segir Örlygur.
„Svo náttúrulega kemur þessi mynd út sem við litum nú bara á sem hálfgerðan óð til bæjarins - sérstaklega út af þessu lagi,“ heldur hann áfram og á þá við lagið Húsavík – My Home Town, eða Húsavík - heimabærinn minn, sem Rachel McAdams flytur í myndinni og á þar að vera framlag Íslands til Eurovision-keppninnar. „En Jaja Ding Dong er auðvitað hittarinn úr myndinni þó að við séum hrifin af Húsavíkurlaginu. Við förum ekki að kalla barinn Húsavík,“ útskýrir Örlygur.
Sjálfur segist hann hafa haft gaman af myndinni. „Við höfðum húmor fyrir því sem var í henni. Það voru einhverjir sem héldu að okkur hefði eitthvað sárnað því það hefði verið gert svo mikið grín af Húsvíkingum en okkur fannst þetta algjör snilld. Þetta var bara eins og sérhannað áramótaskaup fyrir okkur.“
Eurovision-myndin og þáttur Húsavíkur í henni hefur vakið þónokkra athygli um heim allan. Örlygur segir myndina ómetanlega auglýsingu fyrir bæjarfélagið: „Þetta er verðmætt tækifæri sem kemur ekki til allra og kemur ekki oft. Og það er gríðarlega mikilvægt að mínu viti að menn séu hugmyndaríkir að nýta sér þetta.“
