Ýmsar athygliverðar upplýsingar fengust hjá bílaframleiðendum á bílasýningunni í París og ein þeirra kemur frá Car Magazine sem frétti í samtali við Jaguar menn að tilvonandi ný kynslóð F-Type sportbíll fái 4,4 lítra V8 vélina úr smiðju BMW. Hún mun þá leysa af hólmi hina öldruðu 5,0 lítra V8 vél sem kemur frá Ford. Þetta verða að teljast góðar fréttir fyrir áhugamenn um Jaguar bíla því þetta ætti að þýða aflaukning, minni eyðslu og léttari bíl í leiðinni. Næsta kynslóð á að koma af árgerð 2020. 

Reyndar stefnir í að fleiri bílar Jaguar og Land Rover fái vélar frá BMW og líklega á það meðal annars við um öflugustu gerðir Range Rover bíla. Nýr Jaguar F-Type mun fá nýjan undirvagn og áfram verður mikil álnotkun í bílnum og á bíllinn að verða talsvert léttari en forverinn. Jaguar ætlar með nýjum F-Type að keppa mun harðar gegn bílum Porsche, sérstaklega Porsche 911. 

Bíllinn á því að verða meira hlaðinn lúxus en verða í leiðinni praktískari bíll og ekki er loku fyrir það skotið að lítil aftursæti verði í bílnum, líkt og í Porsche 911. Svo er líklegt að Jaguar muni bjóða F-Type í rafmagnsútfærslu, en ekki yrði von á honum fyrr en árið 2023. Yrði hann með 100 kWh rafhlöður og því öflugur mjög.