Að sögn Jagúar hefur breytingin mikil áhrif á aksturseiginleika bílsins með því að nota stífari undirvagn með betra fjöðrunarkerfi en aðallega er það val á vélbúnaði sem skiptir máli fyrir bílinn. Alls verða sex af sjö nýjum vélum nú í boði í tvinnútgáfum af einhverju tagi. Sú sem skiptir mestu máli fyrir Jagúar er tengiltvinnútgáfa með 197 hestaf la 1,5 lítra bensínvél og 107 hestaf la rafmótor við afturdrifið. Verður sú útgáfa 6,1 sekúndu í hundraðið sem þýðir að um öflugasta E-Pace hingað til er að ræða. Hann verður með 15 kWst raf hlöðu undir farangursrýminu og verður hann með 55 km drægi á rafmagninu eingöngu. Þrjár bensínútgáfur með mildri tvinnútfærslu verða einnig í boði og nota þær allar tveggja lítra bensínvélina. Eru þær 197, 246 og 296 hestöfl með níu þrepa sjálfskiptingu og fjórhjóladrifi.

Að innan má sjá sömu breytingar og á öðrum Jagúarbílum hingað til. Bíllinn verður kominn með Pivi Pro upplýsingakerfið með 11,4 tommu snertiskjá. Apple CarPlay og Android Auto verður nú staðalbúnaður og mun bíllinn geta uppfært hugbúnað sinn gegnum netið. 12,3 tommu skjár verður í mælaborðinu sjálfu auk þess sem að nýr framrúðuskjár verður í boði. Loks verður bíllinn með fullkomnara myndavélakerfi en áður, bæði fyrir akreinavara og 360° myndavélina. Að utan eru breytingarnar minniháttar og snúast helst um dæmigerðar breytingar á stuðara og grilli ásamt nýjum díóðuljósum allan hringinn. Hægt verður að panta bílinn strax þótt nýjar gerðir hans muni ekki birtast fyrr en á næsta ári.