Samkvæmt tölum sem birtar voru á þýsku tölfræðivefsíðunni Statista á miðvikudaginn er Úkraína það land í Evrópu þar sem mest landsvæði hefur brunnið í gróðureldum á árinu. Í úttekt vefsíðunnar kemur fram að alls hafi 354.934 hektarar lands brunnið á árinu, sem er langt yfir meðaltali síðustu ára í landinu, sem er aðeins um 17.600 hektarar. Þetta svæði samsvarar um 3.549 ferkílómetrum. Það jafngildir tæplega ferföldu flatarmáli Langjökuls.

Rúmenía er í öðru sæti á listanum en kemst þó ekki með tærnar þar sem Úkraína er með hælana. Samkvæmt tölfræðinni hafa 149.264 hektarar brunnið þar í landi, en meðaltalið frá 2006 til 2021 var aðeins 13.313. Spánn var í þriðja sæti með 92.503 hektara miðað við 66.965 hektara meðaltal.

Þessar tölur eru miðaðar við 15. júlí síðastliðinn. Þær eru því teknar áður en gróðureldarnir í yfirstandandi hitabylgju hófust fyrir alvöru í vikunni. Í nýlegri tölum frá Evrópska skógareldaupplýsingakerfinu (EFFIS) eru Spánn og Króatía hástökkvararnir meðal ESB-ríkja miðað við síðustu ár á eftir Rúmeníu.

Á Spáni hafði 200.371 hektari lands orðið eldi að bráð miðað við 66.965 hektara ársmeðaltal. Í Króatíu höfðu 30.889 brunnið en ársmeðaltalið er aðeins 13.113,06 hektarar.

Í Spáni og Portúgal námu dauðsföll í tengslum við hitabylgjuna um 1.000 á þriðjudaginn. Í Frakklandi höfðu rúmlega 14.000 manns þurft að flýja frá heimilum sínum vegna gróðurelda, sem höfðu breiðst yfir tæplega 11.000 hektara lands