Landhelgisgæslan sigraði breska flugherinn með dramatískum hætti í fótboltaleik síðastliðinn föstudag. Árið 1944 keppti breski flugherinn við íslensku landhelgisgæsluna í fótbolta og vann þá Bretland bikarinn og yfirgaf landið. Nú var leikurinn endurtekinn og náði Landhelgisgæslan að jafna metin, 75 árum síðar.

Peter Lisney, upplýsingafulltrúi breska flughersins, sagði í samtali við Fréttablaðið í nóvember að Bretar og Íslendingar þyrftu að endurtaka fótboltaleikinn sem fór fyrst fram fyrir 75 árum:

„Ég held að stór hluti af liðsmönnunum séu þó enn með horn í síðu Íslendinga eftir að fótboltalið ykkar sigraði England á EM. Þannig við ætlum að efna til fótboltaleiks þann 6. desember klukkan 20:20. Árið 1944 keppti breski flugherinn við íslensku landhelgisgæsluna í fótbolta, fyrir 75 árum. Þá vann Bretland bikarinn og yfirgaf svo landið. Nú ætlum við að taka leikinn aftur.“

Mynd/breski flugherinn

Ásgeir Guðjónsson sprengjusérfræðingur skoraði sigurmarkið með síðustu snertingu venjulegs leiktíma en skömmu áður hafði Jóhann Eyfeld, sigmaður, minnkað muninn í 3-2. Markvörðurinn Stefán Logi Magnússon tryggði Landhelgisgæslunni sigur í vítaspyrnukeppni þegar hann varði eina spyrnu Bretanna og skoraði svo úr vítinu.

Lið Landhelgisgæslunnar var skipað starfsmönnum af flugrekstrarsviði, varnarmálasviði, aðgerðasviði, siglingasviði og sprengjusveit. Þá fór Landhelgisgæslan mikinn á leikmannamarkaðnum fyrir leikinn og var með öflug leynivopn í sínum röðum. Knattspyrnukempurnar Stefán Logi Magnússon, Atli Jóhannsson, Björn Pálsson, Tryggvi Sveinn Bjarnason og Ásgeir Þór Ingólfsson léku allir með liði Landhelgisgæslunnar. 

Breski flugherinn hefur undanfarnar vikur sinnt loftrýmisgæslu hér á landi og þessi bráðskemmtilegi leikur markaði lok hennar.

Fótboltalið breska flughersins árið 1944.
Mynd/breski flugherinn