Þýski Jafnaðar­manna­flokkurinn vann nauman sigur gegn Kristi­legum demó­krötum, flokki Angelu Merkel, í þing­kosningunum í Þýska­landi í gær. Jafnaðar­manna­flokkurinn hlaut 25,7 prósent at­kvæða en Kristi­legir demó­kratar 24,1 prósent, að­eins 1,6 prósentu­stigum minna.

Fylgi Jafnaðar­manna jókst um rúm­lega fimm prósentu­stig frá síðustu kosningum, en fylgi Kristi­legra demó­krata er það versta í sögunni, nærri níu prósentu­stigum minna en fyrir fjórum árum.

Græningjar bæta við sig nærri sex prósenta fylgi og hljóta 14,8 prósent. Frjáls­lyndir demó­kratar koma þar á eftir með 11,5 prósent, 0,7 prósentu­stigum meira en 2017, og þjóð­ernis­flokkurinn AfD hlaut 10,3 prósent at­kvæða, 2,3 prósentu­stigum minna en fyrir fjórum árum.

Olaf Scholz, leið­togi Jafnaðar­manna­flokksins segist hafa skýrt stjórnar­myndunar­um­boð en and­stæðingur hans Armin Laschet, leið­togi Kristi­legra demó­krata, er á­kveðinn í að halda á­fram bar­áttunni, að sögn BBC.

Flokkarnir tveir hafa stjórnað saman undan­farin ár en ó­lík­legt þykir að sam­starfið muni halda á­fram ó­breytt. Talið er að þriggja flokka stjórn sé lík­legasti kosturinn en bæði Græningjar og Frjáls­lyndir demó­kratar hafa falast eftir hlut­verki í nýrri sam­steypu­stjórn.

Talið er að Kristi­legir demó­kratar láti kanslara­em­bættið eftir til Jafnaðar­manna en Angela Merkel hefur nú gegnt em­bætti kanslara síðan 2005.