Dómsmálaráðuneytið hefur ekki svarað fyrirspurn Félags atvinnurekenda um hvort sala áfengis í gegnum netverslanir sé heimil hér á landi eða ekki. Dómsmálaráðherra segir það sína skoðun að jafna þurfi leikinn.

„Ég lagði þá leið til að leggja fram frumvarp sem breytti lögum og gerði íslenska netsölu löglega,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, eftir ríkisstjórnarfund í gær.

„Það var talin sú leið sem væri þörf á enda er hér einokunarverslun með áfengi. Það náði því miður ekki fram að ganga en það er mín einarða skoðun að við ættum að jafna leik íslenskra vefverslana við erlendar.“