Alls eru nú 110 sjúklingar inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna Covid-19 í Danmörku. Er þetta mesti fjöldi innlagðra vegna sjúkdómsins frá því lok maí. Sautján eru nú á gjörgæslu, þar af ellefu í öndunarvél.

Síðastliðinn sólarhring greindust 435 ný smit þar í landi en alls hafa nú 27.072 tilfelli greinst í Danmörku.

„Þetta er áhyggjuefni, bæði fjöldi smitaðra og fjöldi einstaklinga sem er á sjúkrahúsi," sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur á blaðamannafundi í dag.

Nú er mælt með því að allir Danir noti andlitsgrímur hjá læknum, á sjúkrahúsum og á hjúkrunarheimilum þegar ekki er hægt að halda fjarlægðartakmörkunum.