Rafmagnsbilun sem varð í miðbæ Reykjavíkur 27. september síðastliðinn gerði það að verkum að jáeindaskanninn, sem tekinn var í notkun um miðjan september, varð óstarfhæfur í um viku. Hann er rétt að komast í fulla notkun aftur. Þetta staðfestir Pétur H. Hannesson, yfirlæknir röntgendeildar.

Pétur segir að þegar rafmagnið hafi farið þá hafi varaaflstöðvar á spítalanum farið í gang. Loftræstikerfið hafi truflast vegna bilunarinnar og valdið breyttum loftþrýstingi í framleiðslukerfunum fyrir jáeindaskannann, en á spítalanum er framleitt geislavirkt efni sem notað er við rannsóknirnar. „Þetta eru allt herbergi og klefar sem eru gerðir eftir ákveðnum klössum í hreinlæti. Þegar loftræstikerfið bilar þá þarf að sterilísera allt saman upp á nýtt,“ útskýrir Pétur. Rækta þurfi sýni úr loftinu – til að leita að bakteríum - og þegar þær ræktanir komi neikvæðar út sé hægt að byrja aftur. „Þetta er viðkvæm starfsemi,“ segir Pétur.

Landspítalinn réðist í ráðstafanir vegna þessa, til að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig. Pétur segir að svokallaðir ufsar hafi verið settir á loftræstikerfið. Það séu rafhlöður sem grípi inn í, verði rafmagnslaust. „Það er búið að setja það upp.“ Aðspurður segir hann að sá kostnaður hafi verið smávægilegur í stóra samhenginu.

Tvær vikur eru frá því rafmagnsleysið varð. Við það þurfti að stöðva rannsóknir, eins og áður segir. Áður en rafhlöðurnar voru settar í loftræstikerfið hafi þó verið hægt að framkvæma nokkrar rannsóknir.

Pétri er ekki kunnugt um að senda hafi þurft sjúklinga til Danmerkur í jáeindaskanna, vegna þessarar uppákomu. Þangað fóru Íslendingar áður en skanninn var tekinn í notkun hér. Hann segir að sú staða geti þó alveg komið upp, verði hlé á framleiðslunni eða ef rannsókn á sjúklingi þoli enga bið.

Aðspurður segir hann að skanninn, sem var tekinn í notkun fyrir tæpum mánuði, hafi þegar skilað af sér rannsóknum á fáum tugum sjúklinga.