Jack Ma, stofnandi net­verslunarinnar Ali­Baba og einn auðugasti maður Kína, kom í fyrsta skipti fram op­in­ber­­lega í dag en ekki hafði sést til hans í tæpa þrjá mánuði.

Síðast sást til hans þegar hann hélt ræðu í lok októ­ber á síðasta ári í Shangai. Í ræðunni gagn­rýndi hann kín­versk stjórn­völd fyrir að hindra tækni­þróun í landinu eftir að fyrir­hugað hluta­fjár­út­boð fyrir­tæki hans var stöðvað. Reuters greinir frá.

Hvarf hans hefur vakið mikla at­hygli, en hann átti að vera dómari í kín­verska raun­veru­leika­þættinum Af­ri­ca's Business Heor­es í lok nóvember en honum var skipt út. Get­gátur voru um að kín­versk yfir­völd hafi æltað að refsa honum fyrir eldræðuna.

Ma birtist hins vegar aftur í dag á net­at­höfn en þar var um 1.200 kennurum víðs vegar um Kína þakkað fyrir vel unnin störf. At­höfnin var haldin af góð­gerðar­fyrir­tæki sem er í eigu Ma og streymt bæði á netinu og á kín­verskum frétta­veitum.

„Við munum hittast aftur þegar að heims­far­aldrinum líkur," sagði hann á at­höfninni í dag.

Ma er sem fyrr segir einn ríkasti maður Kína en eignir hans eru metnar á 58 milljarði Banda­ríkja­dala. Í októ­ber, skömmu fyrir ræðinu frægu, átti að fara fram eitt stærsta hluta­fjár­út­boð sögunnar, hjá fyrir­tæki Ma, Ant Group, sem m.a. rek­ur greiðslu­miðlun­ina Alipay. Til stóð að safna hluta­­fé fyr­ir 37 millj­arða dala en kín­ver­sk­ar eft­ir­lits­­stofn­an­ir stöðvuðu fyr­ir­hugað hluta­fjár­út­­boð. Hluta­fjár­út­boðið er enn á ís meðan kín­versk yfir­völd rann­saka samkeppnishamlandi samráð netverslana í Kína.

Jack Ma lét af sæti stjórnarformanns Alibaba í lok 2019 en hann hefur enn mikil völd innan fyrirtækisins. Hluta­bréf í Ali­baba hækkuðu um 10% í dag eftir að Ma lét sjá sig á ný og hefur greinilega róað fjárfesta en þau höfðu lækkað um 12% undan­farna mánuði.