Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára virðist vera gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki í eigu hins opinbera verði seld til að „auka svigrúm til fjárfestinga í innviðum“. Eins er ýjað að því að fleiri eignir hins opinbera verði seldar.

Fréttablaðið greindi fyrst frá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í gær. Í kynningu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, er fjallað um aukin fjárútlát í hin ýmsu þjóðþrifamál ásamt ríflegri viðbót inn í kjaradeilur á almennum vinnumarkaði. Það er þó gömul saga og ný að ríkisstjórn og stjórnarandstaða deili um framsetningu á fjárlögum og -áætlunum, en Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að áætlunin bæri vitni um slæma hagstjórn ríkisstjórnarinnar.

Sjá einnig: „Börn, fatlaðir og sjúk­lingar látnir bera niður­sveifluna“

Eins og áður segir er vikið að sölu eigna í umfjöllun um mikilvægar fjárfestingar í inngangskafla áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að heildarframlög ríkissjóðs til fjárfestinga á árinum 2020 til 2024 muni nema um 400 milljörðum króna. Árið 2021 er gert ráð fyrir að fjárfesting sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu nái hámarki í 3,7 prósentum en fari svo lækkandi og endar í 3,1 prósenti árið 2024.

Í kaflanum segir að skapa megi aukið svigrúm til fjárfestinga í innviðum með því að nýta afrakstur af eignum ríkisins. „Í því skyni gæti t.d. komið til skoðunar að nýta söluandvirði á eignarhlutum ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, að skapa tekjur af uppbyggingu og þróun á landsvæðum í eigu ríkisins og með því að minnka eignarhluti ríkisins í opinberum fyrirtækjum eða breyta fjármagnsskipan þeirra til að gera þeim fært að auka arðgreiðslur,“ segir í áætluninni. „Einnig má taka upp notendagjöld fyrir afnot nýrra innviða og efna til samstarfs um verkefni með einkaaðilum og fagfjárfestum.

Í samtali við RÚV hafði Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, orð af því í byrjun árs að Landsbankinn væri svo gott sem tilbúinn í söluferli.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar má lesa hér.