Í frumvarpi fjármálaráðherra sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að hámarksfjöldi rafmagnsbifreiða sem geta notið ívilnunar frá virðisaukaskatti verði aukinn úr fimmtán þúsund bílum í 20 þúsund.

Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands, segir áhersluna í frumvarpinu einungis snúa að tekjutapi ríkissjóðs en skautað sé fram hjá öðrum jákvæðum áhrifum sem rafbílavæðing hafi á samfélagið. Svo sem minnkandi mengun í nærumhverfi og minni innkaup á olíu sem spari í gjaldeyri og bæti þannig viðskiptahalla við útlönd.

Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands.

Ekki gert ráð fyrir fimmtán þúsund vetnisbílum

„Það er augljóst hver stefna fjármálaráðherra er. Það á að minnka of hratt ívilnanir á rafbílum,“ segir Tómas. „Þessar ívilnanir þurfa að vera í gildi til að minnsta kosti 2024 og byrja þá að lækka í skrefum til 2027.“

Þá segir Tómas að við mat á fjárhagsáhrifum frumvarpsins hafi verið gert ráð fyrir fimmtán þúsund vetnisbílum sem aldrei muni koma til með að fullnýta sínar ívilnanir, þeir muni ekki ná tilætluðum fjölda inna frestsins sem gefinn sé.

„Ennþá hangir inni ívilnun til 15.000 vetnisbíla en ég vil mæla með því að þetta 15.000 bíla þak á vetnisbíla verði fært yfir á rafbíla. Það eru 30 vetnisbílar á Íslandi og alveg útséð að það er vita gagnslaust að bíða eftir því að þeir fullnýti sínar ívilnanir,“ segir Tómas.