Iva Marín Adrichem, söngkona og laganemi, hyggst leita réttar síns vegna ákvörðunar Ferðamálastofu um að klippa hana út úr kynningarmyndbandi sem frumsýnt var í haust, að þeirra sögn á grundvelli skoðana hennar á transfólki.
Myndbandið sem um ræðir er liður í fræðsluverkefninu Gott aðgengi í ferðaþjónustu sem unnið var í samstarfi Ferðamálastofu, Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra og Öryrkjabandalags Íslands. Iva hefur lítið verið í sviðsljósinu undanfarin ár og segir í samtali við Fréttablaðið það hafa verið með ráðum gert, hún hafi einbeitt sér að söng og laganámi.
Iva sendir Fréttablaðinu tilkynningu vegna málsins sem hún hyggst einnig birta á samfélagsmiðlum sínum. Þar birtir hún skjáskot af Facebook skilaboðum sem settur ferðamálastjóri Elías Bj Gíslason sendi henni þar sem hann upplýsir hana um ákvörðunina, að sögn vegna skoðana hennar á trans-fólki.
Iva, sem tók þátt í Söngvakeppninni árið 2020, var meðal annars í fréttum það árið vegna stofnunnar samtaka og umræðuvettvangs að nafni LGB teymið, sem ætlað var að vera umræðuvettvangur fyrir sam-og tvíkynhneigt fólk. Voru samtökin gagnrýnd fyrir meinta transfóbíu, meðal annars af forsvarsmönnum Samtakanna '78.
„Á þennan samskiptamáta er mér tilkynnt af forstöðumanni opinberrar stofnunar, að vegna skoðana minna hefur verið ákveðið að ég verði klippt út úr kynningarmyndbandi sem ég kom fram í fyrir Ferðamálastofu og var frumsýnt í haust. Einnig var mér greint frá því að myndbandið yrði endurgert og annar blindur einstaklingur fenginn til verksins í minn stað.“
Iva segist því næst hafa hringt í Elías og rætt málið við hann. Þar hafi komið fram að kvartanir hafi borist stofnunninni um þátttöku Ivu í myndbandinu og að nýtt myndband sé komið í framleiðslu.
„Þó var ég ekki upplýst um málið fyrr og greinilegt að ég fái ekki tækifæri til að andmæla þeirri ákvörðun að endurgera myndbandið vegna skoðana minna,“ segir Iva Marín.
„Eftir samtal við ferðamálastjóra er ljóst að honum er hvorki kunnugt um hverjir gerðu athugasemdir við hlutverk mitt í myndbandinu, né hvaða skoðana minna eða ummæla þær athugasemdir taka til efnislega. Af Facebook skilaboðunum frá ferðamálastjóra má hins vegar leiða að mér hafi verið gerðar upp skoðanir sem ég gengst ekki við að hafa.“

Allir frjálsir skoðana sinna á Íslandi
Iva segir að burtséð frá skoðunum sínum séu allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar samkvæmt íslenskri stjórnarskrá. Þá bendir hún á jafnræðisregluna, sem Ferðamálastofu beri skylda til að virða.
„Í henni felst að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda, án tillits til tiltekinna þátta, þar á meðal skoðana. Því gerast Ferðamálastofa, Sjálfsbjörg og ÖBÍ augljóslega brotleg við meginstoðir réttarríkisins með ákvörðun sinni um að skerða rétt minn til atvinnuþátttöku vegna pólitískra skoðana, auk þess að valda mér fjárhagslegu tjóni, mannorðsskaða og andlegum miska.“
Iva segir sérstaklega ámælisvert af Ferðamálastofu, sem flokkist undir stjórnvald, að taka slíka ákvörðun byggða á nafnlausum athugasemdum, án þess að hafa rætt við alla málsaðila eða kynnt sér forsendur og sannleiksgildi athugasemdanna.
„Einnig skýtur skökku við að samtök sem beita sér fyrir réttindum fatlaðs fólks geti ekki virt mannréttindaákvæði stjórnarskrár í eigin starfi. Hér hefur ÖBÍ sýnt í verki að samtökin starfi ekki í þágu alls fatlaðs fólks þar sem þau eru reiðubúin að mismuna einstaklingum á grundvelli opinberra skoðana. Er gott aðgengi aðeins ætlað þeim sem uppfylla skilyrði ofangreindra aðila um æskilegar skoðanir?“
Iva segist ætla að leita réttar síns. „Ég tel á mér brotið og ætla að leita réttar míns. Að sama skapi varða mannréttindi okkur öll og því á málið fullt erindi fyrir sjónir almennings. Við sem samfélag þurfum að eiga samtal um þessa stefnu í átt til einnar leyfilegrar skoðunar.“
Segir að sér hafi verið gerðar upp skoðanir
Aðspurð hvort þessi ákvörðun sé tekin vegna þátttöku hennar í LGB teyminu svokallaða segir Iva: „Það er bara engin konkret ástæða gefin. Hann segir skoðanir gegn trans-fólki, sem ég í fyrsta lagi hef ekki og kemur góðu aðgengi ekkert við, eins og er sagt í skilaboðunum að verkefnið snúist um aðgengi en ekki skoðanir, en samt er þetta tengt saman.“
Iva segir engin fordæmi fyrir þessu á Íslandi. „Nema í tilfelli manna sem hafa hlotið dóma, fyrir brot á almennum hegningarlögum eða alvarleg brot yfirleitt.“
Aðspurð út í þær skoðanir sem vísað er til í samtölum hennar við ferðamálastjóra segir Iva: „Mín afstaða er sú að mér hafi verið gerðar upp skoðanir. Ég hef ekki skoðanir gegn einum né neinum. Svo eru bara ekki forsendur til þess að ræða þær í tengslum vð þetta, eins og ferðamálastjóri bendir réttilega á sjálfur.“
Iva segist ekki hafa verið í sviðsljósinu undanfarin ár. „Ég hef verið upptekin, fór í laganám, að semja tónlist og allskonar og svo mæti ég til leiks í kynningarmyndband með góðan og skemmtilegan boðskap, og ég get algjörlega vottað mikilvægi þessa starfs, og þá bara gerist þetta.“
Iva segir aðspurð að sér finnist málið leiðinlegt. „En ég er frekar að hugsa um fordæmið sem þetta setur fyrir aðra almenna borgara og sérstaklega ungar konur á mínum aldri og yngri. Að stefnan sé og stefna yfirvalda, virðist vera því Ferðamálastofa er stjórnvald, og líka hagsmunasamtök fatlaðs fólks, mér finnst alvarlegt að þessir aðilar kynni sér ekki efnislega kvartanir sem þeim berast og eru búin að ákveða að ég hafi skoðanir sem ég hef ekki.“
Spurð hvernig hún hyggist leita réttar síns segir Iva það í vinnslu. „Þetta er einkaréttarleg krafa, mjög líkla tengd miskabótum og brot á jafnræði. Það kemur fram í stjórnsýslulögum að stjórnvöld eigi að starfa þannig að það megi ekki mismuna borgurum, til dæmis vegna stjórnmálaskoðana. Ég hef farið vel og vandlega yfir allt sem ég hef tjáð mig um og skrifað og ekkert af því er öfgafullt eða hatursfullt eða ofbeldisfullt á neinn hátt.“
Iva segir ekki við þá að sakast sem hafi kvartað yfir því að hún sé í myndbandinu. „Þeir hafa fullan rétt á því að tjá sínar skoðanir en það að það hafi ekki verið lagst í vinnu að kanna málin og kanna við mig, því núna hefur þetta legið á borðinu hjá þessum aðilum síðan í október og ég var fyrst að fá vitneskju um þetta í Facebook skilaboðum síðastliðinn mánudag, eftir að myndbandið var tekið úr birtingu. Það er líka bara brot á rannsóknarreglunni sem yfirvöld eiga að fara eftir.“
Iva segist vona að þetta mál vekji upp umræðu. „Ég vona að þetta veki upp eitthvað samtal. Hvert viljum við stefna? Ef þetta er vilji meirihlutans þá virði ég það en ég bara spyr mig hvort svo sé.“
Frétt uppfærð:
Segja hættu á að markmið náist ekki
Í kjölfar fréttar Fréttablaðsins sem fjallaði fyrst um málið hefur Ferðamálastofa sent frá sér tilkynningu vegna málsins.
Þar segir að þegar í ljós komi að leikari eða sögumaður viðhafi skoðanir sem ganga gegn réttindum fólks sé hætta á að markmið náist ekki með birtingu efnis, líkt og umrædds myndbands.
Tilkynningin í heild sinni:
Undir lok síðasta árs kom í ljós að einstaklingur sem fenginn var gegn greiðslu til þátttöku í gerð fræðsluefnis fyrir verkefnið Gott aðgengi, á vegum Ferðamálastofu í samstarfi við Sjálfsbjörg, ÖBÍ réttindasamtök, o.fl., hefur tilheyrt samtökum sem vegið hafa að réttindum trans fólks. Eftir að fræðsluefnið var birt á heimasíðum samstarfsaðilanna bárust athugasemdir vegna þátttöku viðkomandi og var sú ákvörðun tekin í kjölfarið að hætta birtingu efnisins.
Megintilgangur verkefnisins er að fræða og upplýsa. Þegar í ljós kemur að leikari eða sögumaður viðhefur skoðanir sem ganga gegn réttindum fólks er hætta á að sett markmið náist ekki með birtingu þess.
Hver einstaklingur er að sjálfsögðu frjáls að sínum skoðunum en mikilvægt er að sá sem fenginn er til að vera í forsvari fyrir verkefni á borð við Gott aðgengi sé trúverðug rödd þeirra sjónarmiða sem verkefnið stendur fyrir.
F.h. samstarfsaðila um verkefnið Gott aðgengi
Ferðamálastofa, Sjálfsbjörg og ÖBÍ – réttindasamtök.