Pandu­leni Itula, sem tapaði for­seta­kosningunum í Namibíu í lok nóvember, hefur nú lýst því yfir að hann sé rétt­mætur for­seti Namibíu. Að því er kemur fram í frétt The Namibian sagði Itula á fundi leið­toga stjórnar­and­stöðu­flokkanna á sunnu­daginn að sitjandi for­seti, Hage Gein­gob, og fylgj­endur hans hafi hag­rætt úr­slitum kosninganna.

Á fundinum sagði Itula að þegar hann yrði for­seti myndi hann tryggja efna­hags­frelsi og at­vinnu­öryggi ungs fólks en hann lofaði að hann yrði for­seti fyrir 25. desember næst­komandi. Þá til­kynnti hann að nú­verandi stjórn landsins hefði sex mánuði til að safna aftur þeim peningi sem hafði tapast vegna spillingar em­bættis­manna, meðal annars í tengslum við Sam­herja.

„Ég get sagt enn á ný að ég sigraði kosningarnar í raun. Þið hafið komið fram sem sigur­vegarar og það getur enginn tekið þann sigur af ykkur. Þið eruð rétt­mætir sigur­vegarar og enginn getur vé­fengt það,“ sagði Itula á fundinum þar sem fylgj­endur hans voru staddir.

„Getum ekki leyft spillingu að við­gangast lengur“

Kosningarnar fóru fram mið­viku­daginn 27. nóvember og voru úr­slitin til­kynnt laugar­daginn þrí­tugasta nóvember. Þrátt fyrir að Gein­gob hafi tapað tölu­verðu fylgi hlaut hann yfir­burða­sigur í kosningunum þar sem hann fékk rúm­lega 56 prósent at­kvæða á meðan Itula fékk um þrjá­tíu prósent at­kvæða.

Þá hlaut flokkur for­setans, SWA­PO, einnig meiri­hluta at­kvæða, þrátt fyrir að fylgi þeirra hafi minnkað, en hann hlaut 63 þing­sæti af 104 mögu­legum. Stærsti stjórnar­and­stöðu­flokkurinn, PDM, fékk síðan tæp­lega sau­tján prósent at­kvæða og sex­tán þing­sæti.

„Þessu er ekki enn lokið. Ef skila­boðin eru ekki skýr fyrir Gein­gob, ef skila­boðin eru ekki skýr fyrir [kjör­stjórn Namibíu], skila­boðin eru skýr fyrir al­menning að við getum ekki leyft spillingu að við­gangast lengur, og við látum ekki ýta okkur lengra. Við erum innan ramma laganna, og við munum standa á okkar,“ sagði Itula.