Enn er beðið eftir nýju PCR-greiningatæki sem vonast var til að kæmi til landsins í fyrri hluta nóvember. Yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala segir óvíst hvort hægt verði að setja tækið upp fyrir áramót.

„Þetta er í rauninni eina tæki sinnar tegundar í heiminum. Það er mjög afkastamikið og sjálfvirkt,“ segir Karl G. Kristinsson yfirlæknir en tilkoma þess mun um það bil þrefalda afköst deildarinnar.

Hann segir áætlaðan kostnað vegna einangrunar- og greiningatækisins, sem nefnist Roche Cobas 8800, vera í kringum 100 milljónir króna. Gert er ráð fyrir því að það geti greint allt að fjögur þúsund sýni á sólarhring en að sögn Karls er um að ræða afkastamesta greiningatæki sem hann þekki til.

Bakki út úr samstarfi við Íslenska erfðagreiningu

Íslensk erfðagreining hefur hlaupið undir bagga við Covid-skimun og lánað aðstöðu auk tækjabúnaðs eftir að fjöldi sýna fór ítrekað fram úr afkastagetu deildarinnar í sumar.

Karl á von á því að dregið verði úr samstarfinu við fyrirtækið þegar nýja tækið verði loks komið í gagnið.

„Það var aldrei ætlunin að við myndum verða þar endalaust og ég reikna með því að þegar við erum komin með þetta í gott stand hjá okkur þá bara tökum við yfir þetta. Þá verðum við komin með það mikla afkastagetu að það er ólíklegt annað en hún dugi.“

Sem stendur getur sýkla- og veirufræðideildin greint um tvö þúsund sýni á sólarhring með tækjakosti sínum í Ármúla og allt að fimm þúsund sýni í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar.

Karl segir að með tilkomu nýja tækisins geti deildin gróflega áætlað greint allt að sex þúsund sýni á sólarhring með eigin tækjabúnaði.

„Þegar við flytjum til baka þá erum við að tryggja sambærilega afkastagetu og verið hefur. Hún hefur verið mikil undanfarið og ekki reynt á það að fara upp fyrir þau mörk.“

Þá sé sá möguleiki fyrir hendi að fimm- og allt upp í tífalda afkastagetu deildarinnar með því að greina mörg sýni saman í einu líkt og gert var í sumar.

Karl segir óvíst hvort þörf verði á því að fullnýta væntanlega afkastagetu deildarinnar í bráð en ef til þess kæmi gæti takmarkað framboð á nauðsynlegu hvarfefni reynst flöskuháls. Faraldurinn sæki nú í sig veðrið víða í heiminum, greiningageta þjóða hafi aukist og eftirspurn eftir hvarfefni samhliða því. Sumir framleiðendur hvarfefna eigi að þeim sökum nú erfitt með að fullnægja eftirspurn en þó geti hlutirnir hratt breyst í þessum efnum.

„Eins og aðrir vitum við ekki hvenær eða hvort að næsta bylgja kemur og hvað hún verður stór. Það er líka óvissuþáttur hvernig verður með landamærin, hvað verður mikill fjöldi ferðamanna sem kemur til landsins og hvað þarf að skima mikið af þeim.“

Nýja tækið mun fækka handtökum starfsmanna við greiningu á Covid-sýnum til muna.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Vegur tvö og hálft tonn

Karl segir að ekki hafi fengist formlegar skýringar á afhendingartöfunum frá framleiðandanum Roche en almennt hafi framleiðendur átt í vandræðum með að svara aukinni eftirspurn eftir PCR-greiningatækjum allt frá því að heimsfaraldurinn braust út.

„Þetta átti að fara í frakt um mánaðamótin október/nóvember, svo seinkaði því fram í miðjan nóvember og nú er búið að seinka þessu allavega fram í desember.“

Við tekur umfangsmikið uppsetningarferli og munu tæknimenn koma frá Bretlandi til að aðstoða við verkið.

Að sögn Karls er um að ræða umfangsmikinn búnað sem taki næstum heilt herbergi og vegi tæplega tvo og hálft tonn að þyngd.

Ráðist var í framkvæmdir á húsnæði sýkla- og veirufræðideildarinnar í Ármúla til að finna tækinu stað og er þeim að mestu lokið. Fyrr á þessu ári voru tekin í gagnið tvö minni greiningatæki og svokallaður skammtapípuþjarki til að auka afkastagetu deildarinnar.

Dregur úr álagi á starfsfólk

Roche Cobas 8800 er mun sjálfvirkara en annar tækjabúnaður sýkla- og veirufræðideildarinnar og kallar á mun færri handtök starfsmanna.

Karl segir að sá þáttur eigi eftir að draga úr álagi á starfsfólk og auka öryggi við alla greiningu.

„Við erum með fimm PCR-greiningatæki í dag en það þarf að einangra og hreinsa erfðaefnið fyrst og við erum með sérstök tæki til þess. Svo þarf að færa glösin á milli en þetta tæki gerir hvort tveggja, það bæði einangrar erfðaefnið og greinir örverur.“

„Þá er hægt að setja sýnin bara beint í tækið og síðan tekur tækið sjálft sýnin úr sýnatökusettunum og glösin koma síðan út úr tækinu. Eftir þrjá og hálfan tíma eða svo kemur niðurstaðan.“

Karl bætir við að deildin verði mjög vel búin með tilkomu tækisins og bendir á að það henti ekki síður til að greina aðrar veirur og ýmsar bakteríur. Þá hefur komið fram að tækið muni nýtast við skimun fyrir leghálskrabbameini.

„Við munum geta gert ýmislegt sem gátum ekki gert áður og þurftum að senda til útlanda til greiningar. Þetta er mjög góð viðbót í tækjabúnað deildarinnar burtséð frá Covid-19,“ segir Karl að lokum.