Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 27. nóvember 2021
07.00 GMT

Það er mjög sterkur drifkraftur að vilja forða öðrum frá einhverju slæmu sem hefur komið fyrir mann,“ segir Þórdís, aðspurð hvort nauðgun sem hún varð ung fyrir í nánu sambandi og skrifaði síðar bók um, hafi orðið til þess að hún helgaði líf sitt vinnu gegn ofbeldi.

„En ég hef verið með sterka réttlætiskennd frá því ég man eftir mér. Ég skrifaði til að mynda opið bréf til forseta Íslands um umhverfismál þegar ég var tíu ára. Ég var svolítið sjálfala og fékk að fljóta undir radarinn og las mikið af fullorðinsbókmenntum, var til dæmis búin að lesa sjálfsævisögur úr Auschwitz á þessum sama aldri.“

Þórdís bjó lengi í Svíþjóð ásamt fjölskyldu sinni sem barn, og þegar hún var átta ára gömul skók hvarf ungrar stúlku á svæðinu sænsku þjóðina og hafði málið mikil áhrif á hana.

„Stúlkan hét Helén og var ári eldri en ég og ég samsamaði mig mikið með henni. Þjóðin hélt í sér andanum á meðan leitað var að henni um allt. Þetta varð mjög intensíft og ég lifði mig mikið inn í málið og hreinlega svaf ekki á meðan á leitinni stóð.“ Helén fannst nokkrum dögum eftir hvarfið, hún hafði verið svelt, henni nauðgað og hún pyntuð áður en hún var myrt og lík hennar sett í ruslapoka.

„Það bara dó eitthvað sakleysi innra með mér. Ég var því mjög lítil þegar ég áttaði mig á því að þetta væri ójafn leikur. Hún var tekin því hún var stelpa og allt í einu upplifði ég að ég gæti orðið bráð og varð mjög myrkfælin. Ég held að það sé mikilvægt að taka umræðuna við svona viðkvæm og bráðþroska börn, en það var ekki meðvitund um það á þessum tíma. Ég áttaði mig þarna á að það væru meiri líkur á að við stelpurnar enduðum í ruslapoka einhvers staðar, en strákarnir.“


„Ég áttaði mig þarna á að það væru meiri líkur á að við stelpurnar enduðum í ruslapoka einhvers staðar, en strákarnir.“


Baráttan er valdeflandi

Þórdís segir baráttuna að mörgu leyti mega túlka sem sjálfsvörn.

„Það gefur manni kjark að vita að maður sé að berjast gegn því sem maður hræðist. Það er valdeflandi að vera alltaf að feisa það sem maður óttast.“

Þórdís lærði leiklist, enda segir hún sköpun vera sér lífsnauðsyn.

„Ég lærði þó fljótt eftir að ég útskrifaðist og fór að starfa við það, að það að standa á sviði er ekki það sem heillar mig, heldur það að vera röddin á bak við, sú sem kemur með boðskapinn. Ég er ekki túlkandi, en guði sé lof fyrir leiklistarmenntunina, ekkert hefur gagnast mér betur í fyrirlestrahaldi. Það vantar íslenskt orð yfir „storyteller,“ en það er í raun það sem ég er.“ Sögumaðurinn Þórdís notar til þess ólíka miðla að hafa áhrif: „Ég hef skrifað bækur, starfað sem fréttamaður á RÚV og í dag tala ég daglega til Instagram-fylgjenda minna.“

Rannsakar gerendur

Þórdís eignaðist tvíburasynina Svan og Hlyn fyrir þremur árum, en fyrir átti hún ásamt manni sínum, Víði Guðmundssyni, soninn Hafliða Frey og tvær eldri stjúpdætur, Hafdísi og Júlíu. Tvíburasynirnir fæddust 12 vikum fyrir tímann og eins og algengt er með fyrirbura hafa fyrstu árin töluvert einkennst af umgangspestum sem þeir eru útsettari fyrir.

Fjölskyldan bjó í Svíþjóð þar til fyrir stuttu og nýtti Þórdís tímann þegar hún var mikið heima með veik börn og fyrirlestrum var aflýst vegna Covid takmarkana, og stofnaði norrænan samtök um stafræn réttindi og jafnrétti, NORD­REF, sem nýverið hlaut stærstu úthlutun ársins úr Norræna jafnréttissjóðnum.

Ætlunin er að NORDREF geri þriggja landa rannsókn á gerendum sem áreita konur og stúlkur á netinu, til dæmis með typpamyndum, sem hafa verið töluvert í umræðunni hér á landi, ásamt ósamþykktri dreifingu nektarmynda og hótunum.

Þórdís segist sjálf komin með þykkan skráp og tekur upphrópunum reiðra karla um að hún eigi að halda kjafti létt enda viss um að reiðin beinist gegn baráttu hennar frekar en persónu. Fréttablaðið/Ernir
Fréttablaðið/Ernir

Í kjölfar ítrekaðra #MeToo byltinga hefur umræðan um kynferðisofbeldi og -áreitni opnast upp á gátt, en Þórdís byrjaði að tala um þessi mál þegar fáir voru að því og er því brautryðjandi á því sviði.

„Mér finnst ég ekkert voðalega gömul en ég var þó fyrsta konan til að segja frá því opinberlega að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í jafningjasambandi, undir nafni og mynd.“ Þórdís sagði frá í fyrstu bók sinni Á mannamáli, sem kom út fyrir tólf árum síðan.

„Á þessum tíma nafngreindi ég ekki gerandann og var hyllt sem hetja. Það er ekki fyrr en konur nafngreina gerendur að þær eru brenndar á báli,“ segir hún.


Þá urðu læti


Árið 2017 gaf Þórdís út umdeilda bók, Handan fyrirgefningar, sem kom samtímis út í fimm löndum. Bókina skrifaði hún ásamt Ástralanum Tom Stranger, sem var kærasti hennar á unglingsárum og sá sem hún talaði fyrst um nafnlaust í fyrri bókinni sinni: Sá sem braut á henni í sambandi öllum þessum árum áður.


Bókin var þannig samvinnuverkefni geranda og brotaþola og braut blað í leið til uppgjörs og sátta.

„Þá urðu læti. Jesús góður, urðu læti,“ segir hún og hlær.

„Ég þekki slaufunarmenningu alveg á eigin skinni, enda var ég þarna sökuð um að vera gerandameðvirk. Við Tom vorum að reyna að koma með mótvægi sem kallað hafði verið eftir lengi, að karlmaður sem hafði gerst sekur um að beita ofbeldi, tæki ábyrgð og sýndi þar með hvar skömmin liggur. Um leið fékk ég tækifæri til að skila honum ábyrgðinni og skömminni og gera það opinberlega.


„Ég þekki slaufunarmenningu alveg á eigin skinni, enda var ég þarna sökuð um að vera gerandameðvirk."


Þarna kom Tom fram með orðræðu sem vantar sárlega, þar sem gerandi skorast hvergi undan, dregur ekki úr verknaðinum og fegrar hann ekki neitt. Hann axlar heilshugar ábyrgð á honum og gerir það í samráði við sinn þolanda. Þetta er það sem vantar í dag og veldur þeirri reiði sem við höfum séð í nýjustu #MeToo byltingunni þar sem vantar allt samráð við þolandann og tilfinningin er sú að gerandinn sé meira að reyna að hvítþvo sig frekar en axla ábyrgð, eða sé í einhvers konar „damage control,“ því einhver saga um hann sé farin að leka.“


„Þetta er það sem vantar í dag og veldur þeirri reiði sem við höfum séð í nýjustu #MeToo byltingunni þar sem vantar allt samráð við þolandann og tilfinningin er sú að gerandinn sé meira að reyna að hvítþvo sig frekar en axla ábyrgð, eða sé í einhvers konar „damage control,“ því einhver saga um hann sé farin að leka.“


Reiði er hreyfiafl


Þórdís segist vel hafa vitað að fólk yrði reitt og að hún skilji reiðina vel.

„Loks hafði fólk geranda til að beina reiðinni að.“


Hún segist þó ekki fara ofan af því að innleggið hafi átt rétt á sér og sé enn mikilvægt, enda hafi meirihluti viðbragðanna verið jákvæður.

„Við náum engum framförum nema þeir sem eru rót vandans taki þátt í að uppræta hann. Nú er umræðan komin á allt annan stað en var þá og enginn heldur því fram að þolandi megi ekki segja frá úrvinnslu sinni, heldur þvert á móti snýst hún um hvenær gerendur eigi afturkvæmt, eins og við höfum séð í mjög umdeildum Kveiksþáttum. En það er sannarlega ekki einhlítt svar við því og fer mikið eftir brotum,“ segir Þórdís.

Talið berst að reiðinni sem virðist töluvert einkenna samfélags­umræðuna þessa dagana, en Þórdís bendir á nauðsyn hennar.

„Reiði er hreyfiafl og eðlilegt og bráðnauðsynlegt viðbragð við óréttlæti. Það hefur engin bylting í veraldarsögunni átt sér stað án þess að fólk verði reitt. Við eigum ekki að óttast reiðina og telja að hún sé óvinur okkar, heldur beina henni í réttan farveg. Við eigum að vera reið yfir því að réttarkerfið bregðist og að níu konur hafi farið með mál sín til Mannréttindadómstóls eftir að kerfið hérlendis brást þeim.

Við eigum að vera reið yfir því að yfirgengilegur meirihluti kynferðisbrotamála sé felldur niður. Ég er því sátt við reiðina, en ég skil að fólki finnist vandratað í umræðu sem reiði er í. En ef maður áttar sig á því að hún hefur tilgang og mun mögulega búa til betra samfélag fyrir börnin okkar, þá held ég að maður hætti að líta á hana sem ógn.


Bjartsýnisfólk breytir heiminum


Það er sárt að breyta heiminum. Það er bara fokking erfitt og sárt. Það er slítandi og blóðugt og það er bara barnalegt og einfeldni að halda að það verði bara næs fyrir alla, enginn fórnarkostnaður og enginn liggi í valnum,“ segir hún með áherslu, en baráttukonan Þórdís er einkar glaðbeitt sem gæti mögulega komið einhverjum á óvart, miðað við veruleikann sem hún alla daga býr við.

„Ég er óbilandi bjartsýn að eðlisfari,“ segir hún og hlær. „Það er yfirleitt bjartsýnisfólk sem breytir heiminum.“


„Það er sárt að breyta heiminum. Það er bara fokking erfitt og sárt. Það er slítandi og blóðugt og það er bara barnalegt og einfeldni að halda að það verði bara næs fyrir alla, enginn fórnarkostnaður og enginn liggi í valnum,“


Það er stafrænt ofbeldi sem á sem fyrr segir hug Þórdísar allan og í vikunni hélt hún meðal annars erindi á vegum Evrópusambandsins fyrir jafnréttisráðherra stærstu ríkja þess.

„Stafrænt ofbeldi er ofboðslega kynjað og ég held að fæstir átti sig á því hversu ólíkar birtingarmyndir það hefur fyrir konur og karla. Konur fá yfir sig mikið meiri kynferðislega áreitni,“ segir Þórdís.


Óumbeðnar typpamyndir


Ein birtingarmynd þess eru óumbeðnar myndir af kynfærum og bendir Þórdís á viðhorfsrannsóknir sem gerðar hafa verið í Bretlandi og Bandaríkjunum.

„Þar kom í ljós að rúmlega helmingur ungra kvenna hafði fengið óumbeðnar typpamyndir. Ég hugsa að talan sé svipuð hér á landi, enda erum við mjög stafræn þjóð.“


„Þar kom í ljós að rúmlega helmingur ungra kvenna hafði fengið óumbeðnar typpamyndir."


Þórdís segir ekki síst áhugavert að þegar konur voru spurðar hvort þeim þættu slíkar myndsendingar sexí, svöruðu 86 prósent þeirra: Alls ekki.

„Óumbeðin nektarmynd er form af kynferðislegri áreitni og í ár tóku hér á landi gildi lög um kynferðislega friðhelgi. Það er ekki í lagi að ryðjast inn í hana með nektarmynd, það er lögbrot.“

Þórdís Elva heldur úti vinsælum Instagram-reikningi og nýtir hann í baráttuna, en segir þar einnig frá lífi tvíburamóðurinnar sem getur sannarlega verið grátbroslegt. Hún er dugleg að gera grín að eigin hversdagsleika sem mæður ungra barna gætu tengt við, til að mynda sitjandi ein úti í bíl með miðstöðina á til að eiga dýrmæta stund fyrir sig eina. Hún er virkur notandi og segir hún í kringum fimm þúsund manns fylgjast með sér daglega.

„Ég nýti miðilinn mikið til að bæði koma mínu efni á framfæri og fá viðbrögð. Ég er í samtali við samtíma minn og það krefst þess að hlusta þegar hann svarar.“


Samþykki gerir gæfumuninn


Þórdís spurði fylgjendur sína út í hinar svokölluðu typpamyndir og segir viðbrögðin hafa verið afgerandi.

„Algengt var að konur töluðu um að ef myndin var óumbeðin hafi það virkað sem innrás og þær hafi viljað þurrka myndina úr minni sínu. Öðru gilti auðvitað um umbeðna mynd, eða mynd sem var hluti af einhverju daðri á milli para. Þetta er alltaf það sama, hvort sem það er á netinu eða utan þess: Samþykki gerir gæfumuninn.“


„Þetta er alltaf það sama, hvort sem það er á netinu eða utan þess: Samþykki gerir gæfumuninn.“


En netið er alls staðar og löggjöf er varðar það misjöfn á milli landa.

„Ég skil vel að fólki fallist hendur í baráttunni,“ segir Þórdís og nefnir vefsíðu sem mikið hefur verið notuð hér á landi til að birta nektarmyndir af ungum konum í þeirra óþökk.


„Inni á umræddri síðu eru 99 prósent þolenda konur og 76 prósent þeirra undir 18 ára aldri. Síðan er vistuð í Panama og íslensk lögregla segist ekkert geta gert enda ekki með lögsögu þar, en auðvitað er alveg hægt að gera eitthvað. Tæknilegu lausnirnar eru til, það vantar bara viljann. Við búum í heimi þar sem hakkarar komast inn í öryggiskerfi Pentagon,“ segir hún með áherslu.

„Ef íslenskur karl misnotar barn í Taílandi getum við sótt hann til saka hérlendis og það sama ætti að gilda um að birta nektarmynd í leyfisleysi.“


„Ef íslenskur karl misnotar barn í Taílandi getum við sótt hann til saka hérlendis og það sama ætti að gilda um að birta nektarmynd í leyfisleysi.“


Bjuggu í vítahring ótta


Inni á umræddri vefsíðu eru ungar konur ítrekað nafngreindar, óskað eftir og birtar nektarmyndir af þeim í þeirra óþökk.

„Ég fór árið 2015 í hringferð um Ísland, hitti krakka og hélt fyrirlestra um þetta. Það hafði enginn fullorðinn rætt um þetta og þau voru uppfull af reynslusögum,“ segir Þórdís, sem fékk sögur frá stelpum allt niður í fimmta bekk grunnskóla.

„Stelpur sögðu mér frá því að auglýst hefði verið eftir myndum af þeim og því væru þær hættar að fara í skólasund og leikfimi af ótta við að hægt væri að ná af þeim mynd. Þær bjuggu í vítahring ótta og voru farnar að skerða þannig sín eigin lífsgæði,“ segir hún.

„Íslensk stelpa varð fyrir því 16 ára gömul að það birtust af henni nektarmyndir án hennar samþykkis og ári síðar gúgglaði ég nafnið hennar. Þá birtust 16.200 niðurstöður og það var hér um bil allt klám, versta tegund sora ofbeldiskláms. Hennar stafræna fótspor var þannig undirlagt af því efni sem maður vill síst að nafn manns tengist. Þessi einstaklingur var ekki orðinn lögráða og á eftir að þurfa að sækja um störf í framtíðinni.“


„Hennar stafræna fótspor var þannig undirlagt af því efni sem maður vill síst að nafn manns tengist."


„Ég er ekki að segja svona sögur sem áróður til kvenna um að taka ekki af sér nektarmyndir. Allir hafa rétt á að tjá sína kynvitund eins og þeir vilja. Það að segja við manneskju: „Þú hefðir ekki átt að taka af þér þessa nektarmynd ef þú vildir ekki að henni væri dreift,“ er svolítið eins og að segja við fórnarlamb nauðgunar: „þú hefðir ekki átt að vera í þessu stutta pilsi.“

Við höfum fullan rétt á að tjá okkur, hvort sem er með klæðaburði eða ljósmynd. Að einhver annar kjósi svo að níðast á okkur af þeim sökum, er alfarið á þeirra ábyrgð. Ég er frekar að vekja athygli á því hversu alvarlegar afleiðingar það hefur að dreifa efni í leyfisleysi.“


Auðvelt að búa til nektarmyndir


Þórdís segir jafnframt auðvelt að búa til nektarmyndir af fólki með aðstoð myndvinnsluforrita og lýsir því hvernig hún hafi í undirbúningi fyrir fyrirlestur vikunnar horft á svokallað „deep fake klám“ þar sem andlit þekktra stjórnmálakvenna hefur verið sett á klámleikkonur. Sú vinsælasta í slíku klámi er bandaríska þingkonan, Alexandria Ocasio-Cortez sem hefur haft hátt um réttindi kvenna og minnihlutahópa,“ segir Þórdís og bendir á að sumt efnið sé ansi sannfærandi og tækninni eigi bara eftir að fleygja fram.


„Sú vinsælasta í slíku klámi er bandaríska þingkonan, Alexandria Ocasio-Cortez sem hefur haft hátt um réttindi kvenna og minnihlutahópa.“


Þórdís segist oft fá spurningar um það hvers vegna hún sé að eyða kröftum sínum í baráttu gegn stafrænu ofbeldi, á meðan hún geti barist gegn „alvöru“ ofbeldi, eins og hún segir það orðað. Ofbeldi sem skilji eftir sig brotin bein og marbletti.

„Þegar ég heyri þessi rök verður mér alltaf hugsað til þess þegar ég var í stjórn Kvennaathvarfsins í fjögur ár. Þar fengum við konur til okkar sem tikkuðu í öll þessi box og voru með brotin bein og blóðnasir. Þær sögðust ekki geta farið úr ofbeldissambandinu því maki þeirra ætti kynlífsmyndband eða nektarmynd og hótaði að setja það í dreifingu.

Þær sjá þá fyrir sér að missa atvinnu sína, félagslega stöðu og jafnvel forsjá barna sinna og æru. Þær sáu sig því tilneyddar til að vera áfram í ofbeldissambandinu. Þannig áttaði ég mig á því að stafræna ofbeldið væri límið sem héldi öllu hinu saman. Það lokar fólk inni í ofbeldissamböndum. Þú tékkar þig ekkert út af internetinu, ef þú verður fyrir ofbeldi á internetinu getur verið ógerningur að ná því út,“ segir Þórdís og sýnir blaðamanni myndir af ungum konum sem tóku líf sitt eftir að hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.


Sagt að halda kjafti


Við mynd af Þórdísi á forsíðu þessa tölublaðs eru dæmi um skilaboð sem hún sjálf hefur fengið á Netinu, hún segist vera komin með þykkan skráp og hún sé dugleg að snúa því upp í grín.

„Algengustu hatursskilaboðin sem ég fæ eru að ég eigi að halda kjafti, svo það er augljóst að margir karlar vilja senda mér lífsstílsráð um að það vanti meiri þögla íhugun í líf mitt. Sem móðir þriggja ára tvíbura, guð minn góður hvað ég er sammála,“ segir hún og skellir upp úr.

Þórdís tekur dæmi um önnur skilaboð á ensku, þar sem sendandinn óskar þess að barmur hennar fari vaxandi: „Still up to your feminist bullshit? Waiting on you to grow some tits!“ Þórdís lítur niður á nett brjóstin og skellihlær: „Við bæði vinur, við bæði.“

Fréttablaðið/Ernir

„Það er auðvelt að grínast með þetta því ég veit að þetta beinist ekki að mér persónulega – jafnvel þó þetta sé skrifað við persónulegar færslur mínar. Ég veit að hvaða kona sem er, sem talar eins og ég og beitir sér með þeim hætti sem ég geri, myndi fá nákvæmlega sömu athugasemdir. Þetta snýst ekki um mína persónu heldur kerfið sem ég er að ögra með starfi mínu.

Hins vegar er ég mannleg og hef upplifað ógeðslegar árásir sem virkilega særðu. Ein þeirra náði undir skinnið á mér, en þá hafði maður haft fyrir því að finna lýsingu mína á nauðguninni sem ég varð fyrir þegar ég var 16 ára. Hann skrifaði hana alla upp á nýtt og sett sjálfan sig inn í hana, og sagðist þannig ætla að gera það sama við mig. Það var vont, því það var svo úthugsað,“ segir Þórdís, sem segir þó erfitt að koma sér úr jafnvægi í dag.


„Ein þeirra náði undir skinnið á mér, en þá hafði maður haft fyrir því að finna lýsingu mína á nauðguninni sem ég varð fyrir þegar ég var 16 ára."


„Það sem þó heldur mér við efnið er að einu sinni til tvisvar í viku fæ ég pósta um að ég hafi bjargað lífi einhvers. Það er þetta sem gefur mér kraftinn og vegur upp á móti tíu af þessum hálfvitum,“ segir hún að lokum, bjartsýn á að baráttan skili sér, enda margt breyst á síðustu fimmtán árum. n

Athugasemdir