„Kynhneigð einstaklinganna kemur þessu máli ekkert við,“ segir Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri hjá ÍTR, um atvikið í Grafarvogslaug þegar starfsmaður tjáði Steinu Daníelsdóttur og kærustu hennar, Kolbrúnu Ósk Ólafsdóttur, að þær hafi verið að haga sér á óviðeigandi hátt og að sundlaugargestur hafi kvartað undan þeim. Þær hafi verið að kyssast.

Fréttablaðið ræddi við parið í gær þar sem þær lýstu atvikinu.

„Við vorum í sundi í Grafarvogslaug. Eins og önnur pör þá vorum við að spjalla og kyssast inn á milli eins og við gerum alltaf í sundi. Höfum reyndar alltaf verið mjög meðvitaðar um að vera ekki að gera það of mikið þar sem það er fólk getur verið viðkvæmt fyrir fjölbreytileika lífsins,“ sagði Steina. Sundlaugarvörður hafi spurt Kolbrúnu, sem fór fyrr upp úr lauginni, hvort hún hafi verið með „bláhærðu konunni“. Hún hafi játað því og sagði þá sundlaugarvörðurinn: „Það sást til ykkar ofan í. Fólki fannst þetta svolítið óviðeigandi.“ Voru þær báðar steinhissa að heyra af þessu.

„Við vorum ekki einu sinni í sleik. Við hvorki settumst ofan á hvor aðra né töluðum um óviðeigandi hluti,“ segja þær. Eftir að sundlaugarvörðurinn sagði Kolbrúnu frá kvörtun sundlaugargests hafi hún svarað hissa: „Ókei“ og hafi þá sundlaugarvörðurinn hermt eftir henni í harðari tóni. Við það labbaði Kolbrún burt enda vildi hún ekki sitja undir þessu.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir forsvarsmaður ÍTR:

„Málið er þannig tilkomið að gestur laugarinnar kom til starfsmanns og kvartaði yfir óviðeigandi hegðun hjá ákveðnum einstaklingum. Starfsmaðurinn taldi því rétt að láta umrædda einstaklinga vita að gestir hafi kvartað undan hegðun þeirra. Þegar annar aðilinn kom fram þá fer starfsmaðurinn til viðkomandi og segir að gestur laugarinnar hafi kvartað undan hegðun þeirra og starfsmaðurinn vildi bara láta vita af þeirri kvörtun. Viðkomandi meðtók þetta og taldi starfsmaðurinn þá að málinu væri lokið,“ segir Steinþór hjá ÍTR.

Hann segir vert að taka fram að kynhneigð parsins hafi ekkert með málið að gera.

Ekki í fyrsta sinn sem hinsegin pari er mismunað

Annað par lýsir svipaðri reynslu í sömu laug. DV, Vísir og Mbl greindu frá því árið 2017 þegar Ingunn Anna Ragnarsdóttir og kærasta hennar Katrín Sigurbergsdóttir fengu kvörtun frá sundlaugarverði í Grafarvogslaug fyrir að faðmast. Atburðarásin var svipuð; sundlaugarvörðurinn sagði að gestur hafi kvartað undir hegðun þeirra.

„Við erum að faðmast og erum að hlæja og tala saman. Jú, við erum nálægt hvor annarri en það er allt of sumt. Svo eftir einhvern tíma kemur þessi starfsmaður til okkar og segir að hann hafi fengið kvörtun frá sundlaugargesti sem sagði að hann gæti ekki setið þarna og horft á okkur káfa á hvor annarri og að þetta væri rosalegt og honum þætti þetta ógeðslegt og að hann hefði farið upp úr lauginni út af okkur,“ sagði Ingunn Anna í samtali við Vísi árið 2017.

„Svo kom starfsmaðurinn með ásökunartón og byrjaði bara að skamma okkur fyrir framan alla,“ sagði Ingunn Anna. Þær fengu í kjölfarið afsökunarbeiðni frá Þórgný Thoroddsen, formanni íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.