Fyrir skemmstu var foreldrum ungra handboltabarna hjá ónefndu íþróttafélagi send greiðsluítrekun, þar sem standa þurfti skil á borgun fyrirhugaðrar keppnisferðar innanlands, um 26.000 krónur. Eitt foreldri benti á að oft væri enginn afgangur af launum foreldra fyrir slíkan aukakostnað. Rukkun var frestað fram yfir mánaðamót. Eftir stóð spurningin um fjárhagslegt jafnræði íslenskra ungmenna er kemur að tómstundaiðkun. Ekki síst í Covid-kreppu.

Jafnræðisspurningin er ekki ný af nálinni. Foreldrar sem Fréttablaðið hefur rætt við en vilja fæstir koma fram undir nafni, segja að í sumum greinum hafi opnast gat milli þeirra barna sem hafi efni á tómstundum og hinna sem eigi ekki séns á að leyfa draumum sínum að rætast. Börn innflytjenda, atvinnulausra og öryrkja séu í sérstakri hættu. Mörg dæmi séu einnig um að fólk með „ágæt laun“ eins og eitt foreldri orðaði það, „eigi í mestu erfiðleikum“, ekki síst vegna ferðakostnaðar.

Frístundastyrkur dugar ekki

Vandinn við kemur margs konar tómstundastarfi þótt sumt sé dýrara en annað. Skólagjöld í tónlistarskólum geta numið á þriðja hundrað þúsundum króna. Ef tónelskt barn er að auki í boltaíþrótt getur tómstundakostnaður þess hæglega farið yfir hálfa milljón á ári með ferðalögum og búningakostnaði.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir: „Markmið og tilgangur Frístundakortsins er að öll börn og unglingar í Reykjavík, 6 - 18 ára, geti tekið þátt í uppbyggilegu frístunda­starfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.“ Af framangreindu má ljóst vera að styrkurinn er þó aðeins dropi í hafið, 50.000 krónur á ári.

Mikil sorg í sumum hjörtum

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi segir að í raun sé búið að markaðsvæða þátttöku í frístundastarfi, þar sem meira fjármagn veiti aðgang að fjölþættari þjónustu og meira framboði.

Sæunn Guðmundsdóttir móðir segir: „Mér finnst sárast að gjaldtakan sem fylgir sumum tómstundum bitnar svo rosalega á börnum tekjulægri heimila.“

Sæunn segir marga foreldra mjög sorgmædda að hafa ekki efni á að leyfa börnum sínum að stunda íþróttir eða listnám. Mjög mörg íslensk börn hafi ekki efni á þessum tækifærum, sem ættu að vera sjálfsögð. Eitt sé árgjaldið. Annað sé keppnisferða- og búningakostnaður sem hafi vaxið mjög seinni ár og sé mikil fyrirstaða.

Sæunn segir það koma okkur öllum við ef barn er utanveltu.

„Að sitja heima vegna fátæktar þegar ferð sem ætlað er að efla liðsandann er fyrirhuguð, getur reynst barni erfiðara en nokkur getur ímyndað sér.“

Sum íþróttafélög veita styrki til efnaminni eða sleppa jafnvel innheimtu ef fjárhagslegar aðstæður hamla þátttöku. Hópar innan íþróttafélaga hjálpa í sumum tilvikum efnaminni börnum. Stuðningur fyrirtækja getur einnig verið veigamikill til að brúa bil. Svo eru til íþróttafélög þar sem ríkir sá skilningur að fyrrnefnd úrræði leysi ekki allan vanda, fyrir suma kunni að fylgja skömm að falast eftir „ölmusu“. Vandinn sé því mjög falinn.

Settu lög gegn mismunun

Til eru íþróttafélög sem hafa stigið skrefið til fulls með því að setja í lög félaganna að kostnaður við iðkun verði aldrei meiri en frístundastyrkurinn. Glímudeild Njarðvíkur er dæmi um slíkt félag.

„Svarið er mjög einfalt. Það er regla að kostnaður verði aldrei hærri en frístundastyrkurinn, til að allir hafi jafnan möguleika á að stunda íþróttir,“ segir Guðmundur Stefán Gunnarsson, formaður deildarinnar.

Í Glímufélagi Njarðvíkur segir í lögum félagsins að kostnaður megi ekki bera frístundastyrkinn ofurliði.

Varðandi annan kostnað, svo sem ferðir og keppnisföt, eru engin mótagjöld hjá Glímusambandinu en boðið upp á notaða galla ef þarf. Aðgangur er líka að styrktarsjóði sem styrkir börn í keppnisferðir. Formaðurinn segist mjög meðvitaður um að fjöldi foreldra hafi ekki efni á að börnin þeirra æfi tilteknar tómstundir. Það eigi víða við um svokallað „venjulegt fólk“. Börn eigi líka erfitt með að biðja um eitthvað sem þau viti að foreldrarnir eigi erfitt með að veita þeim.

„Það eru mörg dæmi um krakka sem falla milli skips og bryggju vegna kostnaðar við íþróttir. Í flestum tilvikum eru einhverjir tilbúnir að grípa þau, en það eru ekki allir tilbúnir að biðja um þá hjálp,“ segir Guðmundur Stefán.

Brot á barnasáttmála

Barnaheill – Save the Children á Íslandi - hafa frá árinu 2013 vakið athygli á málefnum barna sem búa við fátækt og félagslega einangrun á Íslandi. Ljóst er að börn sem búa við fátækt hafi yfirleitt færri tækifæri en önnur börn til dæmis í ýmsum tómstundum, sem þau eiga þó rétt á samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Margrét Júlía segir að margt þurfi að breytast.

Margrét Júlía Rafnsdóttir hjá Barnaheillum segir að mismunun í tómstundastarfi viðgangist á mörgum sviðum. Börn og fjölskyldur þeirra mæti ýmsum hindrunum. Kostnaðurinn sé ein þeirra. Einnig geti vantað hvatningu og stuðning frá heimilum þar sem börn búi við skort eða fátækt. Augljóst sé að ekki sé hægt að forgangsraða tómstundum barna framarlega í heimilisbókhaldinu og frístundastyrkir nægi sjaldnast fyrir öllum kostnaði.

„Það þarf að breyta mjög miklu,“ segir Margrét Júlía.

Tugþúsundir sjálfboðaliða

Hörður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Fylkis, hefur fengist við íþróttastarf ungmenna um langt skeið. Hann segir að fyrrnefndur kostnaður snerti heimili mismikið. Langt í frá allir hafi tök á að greiða 25.000 krónur, hvað þá 100.000, í keppnisferð, eins og dæmi séu um vegna ferðalaga utan landsteinanna. Þess vegna verði íþróttafélög með góðum fyrirvara að skipuleggja fjáröflun, þannig að foreldrar geti safnað upp í kostnað með sölu eða starfi.

Hörður segir að langt sé frá því að allir geti greitt fyrir keppnisferðir.
Fréttablaðið/Ernir

Hörður segir að það geti bitnað á möguleikum barna á þátttöku í íþróttastarfi, að nú sé hægt að nýta frístundastyrkinn til að greiða fyrir frístundaheimili. Þeir krakkar sem séu ekki hjá íþróttafélögum í dag kunni að vera í þeim sporum vegna þess að frístundastyrkurinn var notaður í annað.

Inntur um ástæður þess að tómstundastarf sé frítt fyrir börn í sumum nágrannalandanna, segir Hörður að þjálfarar hér á landi séu í mörgum tilfellum vel menntaðir og aðstaðan oft fyrsta flokks. Samanburður við starf erlendis sé því ekki alltaf marktækur.

Eigi að síður er niðurstaða margra foreldra sú að þótt tugþúsundir sjálfboðaliða um allt land vinni ötullega í þágu æskulýðsstarfs og opni með því tækifæri og glæsilega dagskrá fyrir gríðarlegan fjölda ungmenna, komi það ekki í veg fyrir að mörg börn sitja hljóð hjá. Af fjárhagsástæðum.

Ráðherrans hjartans mál

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra íþróttamála, segir að jöfn tækifæri barna séu henni hjartans mál: „Það er og verður viðvarandi verkefni okkar allra að stuðla að jafnrétti í hvívetna,“ segir Lilja.

Öflugt íþrótta- og tómstundastarf barna sé sameiginlegt verkefni ríkis, sveitarfélaga og íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Starfið sé að mörgu leyti til mikillar fyrirmyndar hér á landi, börnum og ungmennum standi til boða metnaðarfullt og fjölbreytt starf og raunar iðkendum á öllum aldri. „Finnsk stjórnvöld eru til að mynda sérstaklega að horfa til góðs árangurs Íslands er varðar frístundastyrki.“

Eigi að síður segir Lilja mikilvægt að hlutverk og skipulag starfseininga í íþróttastarfi sé metið reglulega og að endurskoða megi verkefni, fjölda og skipulag íþróttaviðburða.

Lilja segir viðvarandi verkefni að stuðla að jafnrétti í hvívetna.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Unnið hefur verið náið með íþrótta- og æskulýðshreyfingum landsins að því að lækka greiðslubyrði fjölskyldna,“ segir Lilja. „Við viljum að sjálfsögðu halda því áfram og tryggja jöfn tækifæri allra barna til að blómstra í þeirri íþrótt eða tómstund sem höfðar til þeirra, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.“

Þá hefur Ferðasjóður íþróttafélaga fengið árlegt framlag á fjárlögum Alþingis.

„Liður í viðspyrnu stjórnvalda vegna áhrifa Covid-19 er sérstakur styrkur til tekjulægri fjölskyldna sem geta sótt um styrk vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna. Þessi aðgerð gildir til ársloka 2021 og þá er mikilvægt að meta árangur hennar og hvort þörf sé á að festa hana í sessi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir íþróttamálaráðherra.