Öll íþróttakennsla á vegum skóla á höfuðborgarsvæðinu mun fara fram utandyra á næstunni og mun skólasund auk þess falla niður.

Þetta er niðurstaða skóla- og íþróttasviða allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þá verða öll íþróttamannvirki og sundlaugar á vegum sveitarfélaganna lokuð sem og söfn á þeirra vegum.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins að þessar ákvarðanir hafi verið teknar eftir ítarlega yfirverð og í ljósi leiðbeininga frá sóttvarnaryfirvöldum.

Á viðkvæmum stað í faraldrinum

„Samfélagið á mikið undir því að það takist að halda skólastarfi gangandi. Því er lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Að öðrum kosti getur eitt smit leitt til að óþarflega stórir hópar eða fleiri en einn skóli þurfi að fara í einangrun eða sóttkví,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að höfuðborgarsvæðið sé á viðkvæmum tíma í faraldrinum og að áðurnefndar ákvarðanir verði endurskoðaðar að viku liðinni í takt við álit Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.