Áhuginn á hlaupum kviknaði þegar ég prófaði um 12 ára gömul að taka þátt í fimm kílómetra víðavangshlaupi,“ segir Birna, sem í dag er doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands.

„Fram að því hafði ég prófað ýmsar íþróttir en aldrei fundið mig almennilega. Ég hafði líka lent í frekar alvarlegu einelti og sjálfsmyndin var svolítið eftir því. Fljótlega eftir þetta fór ég að æfa frjálsar með áherslu á hlaupin og varð fljótt mjög metnaðarfull.

Á brautinni fann ég ákveðna viðurkenningu og þótti ansi efnileg. Það er kannski til marks um mína fullkomnunaráráttu að ég fór að leita leiða til að ná enn þá lengra og þar kom mataræðið og þyngdartap inn. Þetta er hættulegt því fyrst virkar þetta og maður nær að bæta sig og jafnvel ansi mikið og hratt en svo lendir maður bara á vegg.“


Var búin að missa tökin


Birna var nýbyrjuð í Versló þegar fór að halla undan fæti.

„Ég hafði gengið það mikið á mig og mína orku að skyndilega átti ég erfitt með að komast upp tröppurnar í skólanum.“

Birna segir það hafa tekið hana svolítinn tíma að viðurkenna fyrir sjálfri sér og fólkinu sínu að í óefni væri komið.

„Það var erfitt að átta sig á að maður væri búinn að missa tökin. Orkuleysið birtist á margan máta í daglegu lífi og á æfingum hætti ég til dæmis að ráða við hraðabreytingar úr hægu skokki í sprett og öll afkastageta hrundi. Það var mjög sérstakt að upplifa þetta.

Það er ekki alltaf samasem-merki á milli átraskana og undirþyngdar en þarna var ég komin í verulega undirþyngd. Fjölskyldan hafði miklar áhyggjur, ég var kölluð á fundi í skólanum, tók eftir að stöðvarstjórar í ræktinni voru farnir að fylgjast með mér og ég man eftir sundferð þar sem laugarvörðurinn fylgdist sérstaklega með því að ég hefði það yfir laugina.

Orkuleysið var bara orðið algjört. En maður var samt alltaf að vona að þetta myndi reddast einhvern veginn.“

„Orkuleysið birtist á margan máta í daglegu lífi og á æfingum hætti ég til dæmis að ráða við hraðabreytingar úr hægu skokki í sprett og öll afkastageta hrundi."

Útbjó sitt eigið teymi


Birna var greind með átröskun á Barna- og unglingageðdeild (BUGL) og sótti nokkur viðtöl þar.

„Ég fann þó fljótt að það var ekki leiðin sem ég var reiðubúin að fara sem íþróttakona og ákvað í samvinnu við foreldra mína að hætta í þeirri meðferð. Ég bjó mér hálfpartinn til mitt eigið teymi. Ég var með einstakan styrktarþjálfara í gegnum þetta allt og á frábæra fjölskyldu auk þess sem ég fór til hjartalæknis, næringarfræðings og annarra sérfræðinga.

Ég var búin að átta mig á því að það væri bara ein leið fær, að horfast í augu við þetta, ef ég ætlaði að geta stundað mína íþrótt og verða ég aftur. Ég var komin í vítahring.“

„Ég var búin að átta mig á því að það væri bara ein leið fær, að horfast í augu við þetta, ef ég ætlaði að geta stundað mína íþrótt og verða ég aftur."

Birna tók sér árs frí frá keppni, fékk grænt ljós á að stunda léttar styrktaræfingar en vann aðallega í að byggja sjálfa sig upp.

„Eftir ár hafði ég varla snert hlaupaskóna og prófaði að taka 10 kílómetra hlaup og bætti mig mikið. Ég var nokkuð þyngri en ári áður en það var mikið kikk að finna að orkan var komin aftur og skilaði sér í bættum árangri.

Þyngdaraukningin og styrkurinn gerði mikið fyrir mig. Það var gott að færa áhersluna frá þessum útlits- og þyngdarmiðaða fókus og yfir á næringu og orku, afkastagetu og bara alla líðan.“


Birna fór að stunda Boot camp af fullum krafti og segir þjálfara sinn þar hafa stutt sig vel.

„Það var mikilvægt að vinna með einhverjum sem sýndi mér góðan skilning.“

Birna segist enn þurfa að vera meðvituð þó hún hafi náð fullum bata. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Meðvituð um mörk sín


Birna segist hafa verið komin í þokkalegt jafnvægi síðasta ár sitt í menntaskóla og nú, sjö árum síðar, þurfi hún að vera nokkuð meðvituð um sig.

„Ég náði fullum bata en það þýðir ekki að það verði aldrei neitt erfitt aftur eða ákveðnir hlutir geti ekki triggerað.“

Birna segist hafa verið inn og út úr keppnum síðustu árin en samhliða hlaupunum hafi hún líka fundið sig í kraftlyftingum og farið að blanda þessu saman.

„Ég finn að að vissu leyti þoli ég ekki sama hlaupaálag og áður og þarf að vera meðvituð um það hvar mörkin mín liggja. Líkaminn er pínu á varðbergi þar.“

„Ég finn að að vissu leyti þoli ég ekki sama hlaupaálag og áður og þarf að vera meðvituð um það hvar mörkin mín liggja. Líkaminn er pínu á varðbergi þar.“

Birna lærði næringarfræði við Háskóla Íslands og bætti í framhaldi við sig meistaragráðu í íþróttanæringarfræði í Hollandi.

„Nú á doktorsnámið og RED-Í rannsóknarverkefnið hug minn allan.“

RED-Í rannsóknin fer fram í tveimur hlutum, fyrri hlutinn er rafrænn spurningalisti sem lagður er fyrir þátttakendur sem uppfylla skilyrði um að hafa náð 15 ára aldri og vera afreks- eða framhaldsiðkendur í sinni grein. Svo munu um 100 þátttakendur fá boð um þátttöku í frekari mælingum eftir áramót.

Birna vinnur nú að doktorsverkefni um næringu og orkuskort íþróttafólks. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það er enn hægt að skrá sig til leiks og viljum við fá sem flest íþróttafólk til að taka þátt í þessu með okkur,“ segir Birna og hvetur íþróttafólk sem vill taka þátt til að kanna málið á heimasíðunni redi.‌hi.is og tengdum samfélagsmiðlum.


Rannsakar næringu íþróttafólks

„Þessi hlutfallslegi orkuskortur (Relative Energy Deficiency in Sport, RED-S) sem við erum að skoða sérstaklega í RED-Í getur átt sér ýmsar orsakir. Allt frá því að fólk er að æfa mjög mikið og gerir sér ekki grein fyrir að það þurfi að borða þetta mikið, eða gleymir einfaldlega að borða, og til klínískra átraskana.


Við sjáum vissulega að líkamsímyndarvandi er til að mynda talsvert algengt vandamál hjá íþróttafólki í ýmsum greinum, meðal annars hérlendis. Sé litið til alþjóðlegra rannsókna þá virðist algengi neikvæðrar líkamsímyndar, átraskana og/eða RED-S nokkuð breytilegt milli íþróttagreina en getur sannarlega komið upp hjá öllu íþróttafólki.“

„Við sjáum vissulega að líkamsímyndarvandi er til að mynda talsvert algengt vandamál hjá íþróttafólki í ýmsum greinum, meðal annars hérlendis."

Í grunninn á allt íþróttafólk það sameiginlegt að vera metnaðarfullt og leita ólíkra leiða til að ná árangri. Oft kemur mataræðið þar fljótt upp sem mögulegur árangursaukandi þáttur. Sumt íþróttafólk upplifir innri og/eða ytri pressu til að ná fram breytingum á þyngd og líkamssamsetningu.

Oft er svo talað um til dæmis úthaldsíþróttir eins og hjól og hlaup, fagurfræðilegar greinar eins og fimleikar og ballett, og þessar eiginlegu þyngdarflokkaíþróttir sem áhættugreinar hvað þetta allt snertir.“


Tabú í umræðunni

Birna segir þetta hafa verið ákveðið tabú í umræðunni en sjálf hafi hún talað og skrifað opinskátt um sína baráttu frá upphafi.

„Það er mikilvægt að umræðan sé opin og fólk upplifi sig ekki eitt. Á sínum tíma fannst mér umræðan hér heima mjög lítil og lokuð en erlendis hefur margt íþróttafólk stigið fram og ég sótti svolítið í að lesa um það. En umræðan um andlegar áskoranir og fleira þessu tengt hefur aukist til muna síðustu árin og fólk bæði orðið opnara fyrir að segja frá og hlusta.“

Birna leggur áherslu á að íþróttir auki ekki líkurnar á átröskunum en það séu ákveðnir þættir í umhverfi þeirra sem þurfi að kunna að vinna rétt með og ætlunin sé að nota niðurstöður rannsóknarinnar til þessa.

„Við sjáum fyrir okkur að byggja á niðurstöðunum við þróun íslenskra ráðlegginga, matstækja og forvarna fyrir íþróttahreyfinguna. Þannig gætum við gripið fólk fyrr og betur en ella.

Við vitum líka að í dag getur verið yfir árs bið að komast að hjá átröskunarteymum Landspítalans, sem er mikið áhyggjuefni.

Sjálf upplifði ég vanmátt og þekkingarleysi víða en var heppin að finna þá aðstoð sem ég þurfti. Við þurfum að hafa einhvern meiri strúktur í kringum þessa hluti og við viljum byggja það upp.

Eins þarf aukna vitundarvakningu hjá þjálfurum og í raun öllum fagaðilum sem vinna með íþróttafólki á einn eða annan hátt. Það skiptir máli að þeir þekki merkin og viti hvernig eigi að nálgast og styðja einstaklinginn í þessu, sem getur vissulega verið mjög vandasamt en engu að síður gríðarlega mikilvægt,“ segir Birna að lokum.

„Það er mikilvægt að umræðan sé opin og fólk upplifi sig ekki eitt."

RED-Í

Rannsóknin sem ber heitið RED-Í er hluti af doktorsverkefni Birnu í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands en leiðbeinendur og samstarfskonur hennar í verkefninu eru þær Dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir og Dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir.

Markmið rannsóknarinnar er að meta næringarástand íslensks íþróttafólks; með áherslu á það sem kallast tiltæk orku, algengi og áhættuþætti hlutfallslegs orkuskorts í íþróttum (RED-S).

Á heimasíðunni https://redi.hi.is/ má finna allar upplýsingar um verkefnið og leiðbeiningar varðandi þátttöku.